Flýtilyklar
Bakið uppvið vegg eftir maraþonleik
Eftir sannfærandi sigur í gær var smá óvissa í kringum KA liðið fyrir þriðja leik liðsins gegn HK í einvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla. Filip Szewczyk spilandi þjálfari var í banni og mætti því Davíð Búi Halldórsson ein mesta blakkempa Íslands í hóp KA í hans stað.
Davíð Búi hafði hvorki æft með liðinu né spilað mikið sem uppspilari og gestirnir úr Kópavoginum gengu á lagið í fyrstu hrinu. Það tók smá tíma að koma taktur á spil okkar liðs auk þess sem lið HK ætlaði sér að nýta tækifærið til hins ítrasta. Að lokum unnu gestirnir frekar öruggan 18-25 sigur í hrinunni og tóku forystuna 0-1.
En þegar leið á fór KA liðið að finna sig betur og betur og strákarnir tóku aðra hrinu föstum tökum. Staðan var 19-11 er skammt var eftir og allt útlit fyrir öruggan sigur KA þegar HK minnkaði í 19-18 og endaði hrinan í upphækkun. Þar reyndust strákarnir sterkari og unnu lífsnauðsynlegan sigur í hrinunni og jöfnuðu þar með metin í 1-1.
Aftur byrjuðu strákarnir betur og þeir komust í 5-1, gestirnir svöruðu hinsvegar vel og jöfnuðu í 6-6. Í kjölfarið var leikurinn gríðarlega jafn og spennandi og má vægast sagt segja að spennustigið hafi verið hátt í KA-Heimilinu. Ismar Hadziredzepovic leikmaður HK fékk rauða spjaldið og mönnum var ansi heitt í hamsi. Á lokasprettinum reyndust gestirnir sterkari og þeir komust í 1-2 með 20-25 sigri.
Strákarnir svöruðu hinsvegar vel fyrir sig í fjórðu hrinu og náðu strax góðu forskoti. Spennan var í raun engin í hrinunni og vann KA á endanum 25-17 eftir að hafa verið mest tíu stigum yfir. KA liðið knúði þar með fram oddahrinu og helsta spurningin bara hvort liðið hefði meira úthald enda leikurinn orðinn langur og ósjaldan sem þurfti að stoppa hasarinn til að þurrka upp svita af gólfinu.
HK leiddi oddahrinuna en munurinn var ávallt 1-2 stig og spennuþrungið andrúmsloft í KA-Heimilinu. Í stöðunni 7-9 fyrir HK kemur smass frá gestunum sem fór hátt yfir hávörn KA liðsins og út en af einhverri ástæðu var dæmd snerting og í stað þess að KA fengi uppgjöfina og staðan 8-9 þá hélt HK boltanum og komið þremur stigum yfir.
Þetta var ekki fyrsti dómurinn sem fór í KA liðið og ljóst að pirringur strákanna var orðinn ansi mikill en það má alveg segja að fáir 50/50 dómar hafi fallið með liðinu. HK gekk á lagið, komst í 7-13 og með leikinn í höndum sér. Strákarnir gáfust ekki upp og minnkuðu muninn í 12-13 en nær komust þeir ekki og HK vann á endanum 12-15 og leikinn samtals 2-3.
HK er því komið í 1-2 forystu í einvíginu og getur klárað Íslandsmeistaratitilinn á þriðjudaginn er liðin mætast í Fagralundi klukkan 19:30. Það má þó klárlega ekki afskrifa okkar lið en Filip mætir aftur til leiks eftir leikbannið auk þess sem Arnar Már Sigurðsson libero er að ná sér eftir veikindi en hann lék aðeins rétt rúmlega hrinu í fyrsta leik einvígisins.
Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta á þriðjudaginn og styðja strákana til sigurs. Það er klárt mál að þeir munu gefa allt sitt til að knýja fram hreinan úrslitaleik um titilinn sem færi fram í KA-Heimilinu.