Flýtilyklar
Annar frábær sigur KA á Aftureldingu
KA gerði sér lítið fyrir og vann Aftureldingu öðru sinni um helgina er liðin mættust í gær. KA vann fyrri leik liðanna á laugardaginn og var það fyrsta tap Mosfellinga í vetur en með sigrinum í gær tók KA liðið afgerandi forystu á toppi deildarinnar og er ósigrað eftir fyrstu 9 leiki vetrarins.
Afturelding þurfti nauðsynlega á sigri að halda en það var okkar lið sem hóf leikinn betur. KA komst í 7-15 áður en heimaliðið fór að finna taktinn. Afturelding tókst að minnka muninn niður í eitt stig og var staðan 20-21 fyrir lokakaflann. Stelpurnar hafa hinsvegar ansi oft sýnt það að þegar mest reynir á þá halda þær haus og unnu þær fyrstu hrinuna 21-25þ
Í annarri hrinu var mikið um sveiflur og skiptust liðin á að leiða. Mikil spenna var í leiknum og erfitt að sjá hvort liðið myndi taka þessa mikilvægu hrinu. KA leiddi 20-21 en þá gerðu Mosfellingar næstu þrjú stig og voru í lykilstöðu á að klára hrinuna. En stelpurnar áttu aftur frábæran lokakafla og gerðu útum hrinuna með því að gera fjögur stig í röð og 23-25 sigur staðreynd.
KA var þar með komið í 0-2 og í kjölfarið virtist allur vindur úr heimaliðinu. KA liðið gjörsamlega keyrði yfir þriðju hrinuna og var magnað að fylgjast með spilamennsku liðsins. Á endanum vannst 10-25 sigur og þar með leikurinn samtals 0-3.
Þrjú gríðarlega mikilvæg stig í hús og samtals sex yfir helgina í uppgjöri toppliðanna. Með sigrunum tveimur er KA liðið komið í algjöra lykilstöðu í baráttunni um Deildarmeistaratitilinn en KA er með 26 stig af 27 mögulegum eftir 9 umferðir. Afturelding er áfram í 2. sæti en hefur nú tapað 6 stigum.
Stelpurnar geta því farið ansi sáttar inn í jólafríið en fyrsti leikur liðsins eftir jól er útileikur gegn Þrótti Reykjavík 1. febrúar.