Flýtilyklar
4 fulltrúar KA í úrvalsliði kvenna
KA á alls fjóra fulltrúa í úrvalsliði efstudeildar í blaki kvenna sem Blaksamband Íslands gaf út á dögunum. Alls eru þrír leikmenn úr okkar röðum í liðunu auk þess sem að Mateo Castrillo er þjálfari liðsins.
Tea Andric var stigahæsti leikmaður deildarinnar og er hún að sjálfsögðu á sínum stað í stöðu kantsmassara. Jóna Margrét Arnarsdóttir er uppspilari liðsins og þá er Valdís Kapitola Þorvarðardóttir libero úrvalsliðsins. Við óskum stelpunum sem og Mateo til hamingju með útnefninguna.
Þá var Sævar Már Guðmundsson fyrrum leikmaður KA valinn besti dómari ársins fimmta skiptið í röð en hann hefur hlotið útnefninguna nú alls 13 sinnum.
Stelpurnar eru eins og flestir ættu að vita Deildar- og Bikarmeistarar og geta á þriðjudaginn tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn en þær leiða 2-0 í úrslitaeinvíginu gegn Aftureldingu. Við hvetjum að sjálfsögðu alla sem geta til að mæta í KA-Heimilið á þriðjudaginn og aðstoða stelpurnar okkar að sigla heim eina titlinum sem eftir er til að fullkomna tímabilið.