Flýtilyklar
3-1 sigur og stelpurnar geta tryggt á morgun!
KA og HK mættust í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna í dag. KA hafði unnið fyrsta leik liðanna og gat með sigri komið sér í lykilstöðu en vinna þarf þrjá leiki til að hampa Íslandsmeistaratitlinum.
Gestirnir byrjuðu betur en KA liðið var aldrei langt undan en greinilegt var á upphafsmínútunum að gríðarlega mikið var undir. Í stöðunni 5-7 fyrir HK náðu stelpurnar frábærum kafla þegar þær gerði sex stig í röð og í kjölfarið leiddi KA. HK komst yfir 15-17 og spennan mikil í leiknum, liðin skiptust á að leiða og mátti vart sjá hvoru megin hrinan myndi enda.
HK leiddi 19-20 en þá kom aftur sex stiga kafli hjá stelpunum sem kláruðu hrinuna 25-20 og tóku þar með forystuna 1-0 en klárt að leikurinn yrði gríðarlega jafn og spennandi fyrir þá fjölmörgu áhorfendur sem mættu í KA-Heimilið.
Önnur hrina byrjaði svipað og sú fyrri og var staðan 4-5 fyrir HK þegar gestirnir gáfu í og komust í 4-9. Í kjölfarið reyndu stelpurnar sitt besta að koma sér betur inn í leikinn og það gekk hægt og bítandi. KA jafnaði í 15-15 og eftir það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi enda. Stelpurnar gengu frá hrinunni 25-22 eftir að hafa komist meðal annars fimm stigum yfir undir lokin.
Stelpurnar hófu þriðju hrinu af miklum krafti og komust snemma í góða forystu. HK reyndi sitt besta til að koma til baka en styrkur KA liðsins var einfaldlega of mikill. Munurinn var 5-8 stig í gegnum hrinuna og stemningin mikil á pöllunum. En það býr mikið í HK liðinu og þær komu með áhlaup, þær breyttu stöðunni úr 20-13 yfir í 20-20 og allt í einu orðin mikil spenna í hrinunni.
Áfram hélt HK að þjarma að okkar liði og staðan var skyndilega orðin 21-24. Stelpurnar gerðu sitt besta til að snúa stöðunni við en það gekk ekki og HK minnkaði muninn í 2-1 með 22-25 sigri. Miklar sveiflur í þriðju hrinu og ljóst að þessi leikur væri hvergi nærri búinn.
KA liðið sýndi mikinn karakter og komst í 7-1 í upphafi fjórðu hrinu og stelpurnar staðráðnar í að ganga frá leiknum. HK reyndi að endurtaka leikinn frá því í þriðju hrinu en nú var einbeitingin svo sannarlega til staðar hjá okkar liði og munurinn jókst er leið á hrinuna. KA komst í 18-7 og eina spurningin bara hve stór sigur liðsins yrði.
Á endanum vannst 25-13 sigur og samanlagt 3-1. KA leiðir einvígið því 2-0 og getur með sigri í leik liðanna á morgun kl. 14:00 tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skiptið í sögu félagsins. Það er hreinlega skyldumæting á morgun, áfram KA!