12 frá KA á landsliðsæfingum BLÍ

Blak
12 frá KA á landsliðsæfingum BLÍ
Karlahópurinn æfði saman á Laugum

Landsliðsverkefnin eru farin á fullt hjá Blaksambandi Íslands eftir langa covid pásu og um nýliðna helgi æfðu A-landslið karla og kvenna auk U21 liðs kvenna og U22 liðs karla á Norðurlandi. Alls átti KA 12 fulltrúa á æfingunum sem heppnuðust afar vel.

Birkir Freyr Elvarsson og Alexander Arnar Þórisson voru í A-landsliðshóp karla og þeir Börkur Marinósson, Draupnir Jarl Kristjánsson, Gísli Marteinn Baldvinsson, Sölvi Páll Sigurpálsson og Patrick Gabriel Bors í U22 hópnum. Karlahóparnir æfðu á Laugum en þess má til gamans geta að Oscar Fernández Celis leikmaður KA var aðstoðarþjálfari á æfingunum.

Kvennamegin voru Gígja Guðnadóttir og Valdís Kapitola Þorvarðardóttir í A-landsliðinu og þær Lovísa Rut Aðalsteinsdóttir, Jóna Margrét Arnarsdóttir og Heiðbrá Björgvinsdóttir í U21 hópnum. Kvennahóparnir æfðu á Húsavík.

Það verður spennandi að fylgjast með blaklandsliðunum okkar á árinu en Blaksambandið er heldur betur að gefa í hvað varðar umgjörð hjá landsliðunum. A-landsliðin munu taka þátt í EuroVolley í ágúst og september, riðlakeppni sem leikin er heima og að heiman. Í fyrsta skipti verða U21 kvenna og U22 karla send í Evrópukeppni frá 19.-22. maí 2022.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is