Flýtilyklar
André Collin stýrir karlaliði KA
André Collin mun áfram stýra karlaliði KA í blaki í vetur en hann tók við liðinu á miðri síðustu leiktíð eftir að hafa gengið til liðs við félagið sem leikmaður fyrir síðustu leiktíð. André hefur komið af miklum krafti inn í félagið og við hlökkum mikið til áframhaldandi samstarfs á komandi vetri.
Collin sem er 42 ára er reynslumikill leikmaður og var gríðarlega sigursæll bæði á Spáni og í Brasilíu fyrir komuna hingað norður. Undanfarin ár hefur hann farið mikinn í þjálfun og hefur unnið alla helstu titlana sem í boði eru á Spáni.
Þá hefur Oscar Fernandez Celiz verið ráðinn sem starfsmaður blakdeildar en starfið er nýtt af nálinni hjá KA. Oscar hefur góða reynslu af þjálfun yngriflokka en hann lék með KA liðinu á síðustu leiktíð og kemur nú af fullum krafti inn í starf blakdeildar.
Það er gríðarlega jákvætt skref sem blakið hefur nú tekið að vera með sérstakan starfsmann til að hafa yfirsjón yfir daglegu starfi deildarinnar og mun án nokkurs vafa auka þjónustuna við iðkendur KA enn frekar. Þá mun Oscar einnig sjá um þjálfun hjá þremur yngriflokkum félagsins.