Flýtilyklar
Alexander æfir með TV Rottenburg
Alexander Arnar Þórisson verður ekki með blakliði KA í kvöld þegar liðið tekur á móti Álftanesi en Alexander æfir þessa dagana með liði TV Rottenburg sem leikur í efstu deildinni í Þýskalandi. Christophe Achten landsliðsþjálfari Íslands stýrir liði Rottenburg og bauð Alexander að koma og æfa með liðinu í þrjár vikur.
Þýska deildin er mjög öflug og ljóst að þetta er frábært tækifæri fyrir Alexander að reyna fyrir sér í jafn öflugu liði og Rottenburg er. Þetta er þó ekki hefðbundinn reynslutími en Christophe bauð Alexander að æfa með liðinu í kjölfar þess að einn af lykilmönnum liðsins er fjarverandi í landsliðsverkefni.
Undirbúningstímabilið er enn á fullu í Þýskalandi og mun Alexander ferðast til Belgíu með liðinu um næstu helgi og leika þar fjóra æfingaleiki. Mögulega verða æfingaleikirnir fleiri í kjölfarið en Alexander mun koma aftur til liðs við KA þann 11. október og missir því einungis af leiknum í kvöld.
Við óskum Alexander góðs gengis í Þýskalandi og hlökkum til að fá hann reynslunni ríkari til baka í baráttuna í Mizunodeild karla!