Seiglusigur á Stjörnunni U

Handbolti
Seiglusigur á Stjörnunni U
Daði stóð fyrir sínu á línunni

KA lagði Stjörnuna U að velli í Grill 66 deild karla í handbolta í dag en leikurinn fór fram í Digranesi. Með sigrinum kemur liðið sér í betri stöðu í 2. sæti deildarinnar fyrir síðustu 2 umferðirnar og á enn tölfræðilega möguleika á toppsætinu.

Það var greinilegt að Stjörnumenn ætluðu sér að gleyma fíaskó-inu í kringum síðasta leik sinn og byrjuðu þeir af miklum krafti og komust þeir í 5-1 og 8-4 í upphafi leiks. Það kviknaði þó líf í KA liðinu þegar leið á leikinn og þegar flautað var til hálfleiks var staðan jöfn 14-14.

Síðari hálfleikurinn var svo æsispennandi og var munurinn aldrei meiri en eitt mark en KA leiddi þó mest allan tímann. Staðan var jöfn 23-23 þegar 10 mínútur lifðu leiks en þá kom loksins að því að okkar liði tækist að slíta sig frá sprækum Stjörnustrákum en næstu þrjú mörk voru okkar. Eftir þetta var ekki spurning hvar sigurinn myndi enda og lokatölur voru 25-29.

Mörk KA: Áki Egilsnes 6, Andri Snær Stefánsson 5 (3 úr vítum), Sigþór Árni Heimisson 5, Daði Jónsson 4, Einar Logi Friðjónsson 2, Jón Heiðar Sigurðsson 2, Ólafur Jóhann Magnússon 2, Sigþór Gunnar Jónsson 2 og Heimir Örn Árnason 1 mark.
Jovan Kukobat varði 15 skot í markinu, þar af eitt vítakast.

Mörk Stjörnunnar: Birgir Steinn Jónsson 6, Hjálmtýr Alfreðsson 6, Starri Friðriksson 4, Brynjar Jökull Guðmundsson 3, Guðmundur Sigurður Guðmundsson 3, Hörður Kristinn Örvarsson 2 og Bjarki Steinn Þórisson 1 mark.

Flottur karakter í liðinu að sigla sigrinum heim, sérstaklega eftir erfiða byrjun og koma þessi tvö stig sér virkilega vel á lokametrunum í deildinni. Næsti leikur er stórleikur gegn HK en liðin eru einmitt að berjast um heimaleikjarétt í umspilinu um laust sæti í deild þeirra bestu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  handbolti@ka.is