Flýtilyklar
Ásgeir Sigurgeirsson semur við KA til tveggja ára
Þær fréttir bárust KA mönnum í dag að sóknarmaðurinn ungi og efnilegi Ásgeir Sigurgeirsson hefði gert tveggja ára samning við félagið. Ásgeir var á láni frá Stabæk síðasta sumar og sló heldur betur í gegn og vann bæði hug og hjörtu stuðningsmanna liðsins.
Ásgeir tók þátt í 17 af 22 deildarleikjum KA og skoraði í þeim átta mörk, þar á meðal markið mikilvæga gegn Selfossi á heimavelli sem tryggði KA sæti í Pepsi-deildinni. Ásgeir lék mest á hægri kanti KA-manna en hann getur einnig leikið aðrar stöður fremst á vellinum.
Ásgeir er 20 ára gamall og lék upp yngri flokka með Völsungi á Húsavík áður en hann var keyptur til Stabæk. Hjá Stabæk varð hann fyrir meiðslum sem urðu til þess að hann kom á láni til KA þar sem hann fékk sig góðan af meiðslunum og spilaði vel í sumar. Nú hefur KA náð samkomulagi við Stabæk um kaup á Ásgeiri og hefur Ásgeir skrifað undir tveggja ára samning.
KA-menn hlakka til að fylgjast með Ásgeiri í deild þeirra bestu á næsta ári en hann var bæði valinn efnilegasti leikmaðurinn af KA á sigurhátíð félagsins, sem og í uppgjöri Fótbolta.net á Inkassodeildinni í sumar.