Flýtilyklar
Wolfsburg vann með minnsta mun
Það var alvöru leikur á Þórsvelli í dag þegar Þór/KA tók á móti Wolfsburg í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Fyrirfram var reiknað með býsna erfiðum leik fyrir okkar lið enda Wolfsburg eitt af allra bestu liðum heims.
Þór/KA 0 - 1 VfL Wolfsburg
0-1 Pernille Harder ('31)
Mætingin á völlinn var til fyrirmyndar en rúmlega 1.500 manns mættu í stúkuna og var fín stemning frá upphafi til enda. Eins og búast mátti við þá lagði okkar lið áherslu á varnarleikinn og leyfa gestunum að stjórna ferðinni.
Leikurinn fór því að mestu leiti fram á vallarhelming okkar liðs en þrátt fyrir það voru færin af skornum skammti en stelpurnar voru mjög agaðar og talandinn góður. Fyrir aftan vörnina var Stephanie Bukovec í góðum gír, það mátti því alveg láta sig dreyma um góða skyndisókn sem myndi breyta leiknum.
En það er alltaf hættulegt að verjast jafn mikið og stelpurnar gerðu í dag og á 31. mínútu skoraði Pernille Harder mark uppúr hornspyrnu. Boltinn hálfpartinn dó í miðjum teignum og Pernille var fyrst að átta sig og kom boltanum í netið. Mjög svekkjandi að fá svona mark í andlitið en stelpurnar brugðust vel við, tóku stuttan peppfund og héldu svo leiknum áfram.
Rétt fyrir hálfleikinn fékk Sandra Mayor besta færi Þórs/KA í leiknum þegar hún kom sér í gegn en skot hennar var rétt framhjá. Staðan því 0-1 í hálfleiknum og klárlega möguleiki á að stríða stórliðinu enn frekar í þeim síðari.
Síðari hálfleikurinn spilaðist alveg eins og sá fyrri, Wolfsburg reyndi stanslaust að opna vörn okkar liðs með litlum árangri. Gestirnir komust reyndar ansi nálægt því að bæta við þegar Claudia Neto skot í slá og út.
Stelpunum gekk ansi erfiðlega að tengja saman sendingar og því var sóknarhætta okkar ekki mikil, gestirnir leyfðu sér því að hafa nær alla leikmenn sína í sóknaraðgerðum sem jók enn á pressuna. Þrátt fyrir sóknarþungann tókst þeim Þýsku ekki að bæta við.
Á lokamínútu venjulegs leiktíma átti Sandra Mayor skot af löngu færi sem fór í skeytin og út. Þarna slapp Wolfsburg með skrekkinn og fer því með 0-1 sigur í seinni leikinn.
Stelpurnar okkar eiga skilið mikið hrós fyrir frammistöðuna, það er gríðarlega erfitt að verjast jafn mikið eins og raun bar vitni og halda skipulagi allan tímann. Markið sem skildi liðin að var í ódýrari kantinum og það er ljóst að þetta einvígi er hvergi nærri búið þrátt fyrir að gríðarlega erfiður útileikur sé framundan.