Flýtilyklar
Þór/KA meistari meistaranna
Stelpurnar í Þór/KA halda áfram að raða inn titlunum en í dag lögðu þær ÍBV í slagnum um titilinn meistari meistaranna. Þór/KA varð eins og alþjóð veit Íslandsmeistari á síðustu leiktíð en ÍBV hampaði Bikarmeistaratitlinum. Leikurinn fór fram á KA-velli og var fín mæting á völlinn.
Þór/KA 3 - 0 ÍBV
1-0 Sandra Mayor ('29)
2-0 Margrét Árnadóttir ('48)
3-0 Margrét Árnadóttir ('58)
Mikil stöðubarátta einkenndi upphaf leiks og ljóst að bæði lið voru mætt til að sækja titil. Lítið var um færi en Eyjastúlkur voru aðeins líklegri ef eitthvað var. En þeir sem þekkja okkar lið vita að það þarf oft ekki mikið til að breyta leikjunum og Sandra Mayor Borgarstjórinn sjálfur skoraði laglegt mark á 29. mínútu eftir sendingu frá Önnu Rakel Pétursdóttur.
Staðan orðin 1-0 og eftir markið færðist meiri ró yfir spilamennsku Þórs/KA enda höfðu gestirnir verið örlítið yfir í baráttunni til þessa. Stelpurnar voru líklegri til að bæta við það sem eftir lifði hálfleiksins en þrátt fyrir ágæt færi þá tókst það ekki og forystan eitt mark í hálfleik.
Sami kraftur hélt áfram í upphafi síðari hálfleiks og það tók ekki langan tíma að koma boltanum í netið og það gerði Margrét Árnadóttir eftir frábært uppspil hjá Huldu Ósk Jónsdóttur. Stelpurnar komnar í algjöra lykilstöðu í leiknum og miðað við spilamennskuna í raun formsatriði að klára leikinn.
Það kom því ekki á óvart þegar Margrét skoraði sitt annað mark stuttu síðar. Hulda Ósk gerði vel, rétt eins og í fyrra marki Margrétar, kom knettinum á Söndru Mayor sem setti boltann fyrir markið og Margrét var vel staðsett og kláraði fagmannlega.
Leikurinn datt svolítið niður í kjölfarið enda úrslitin í raun ráðin og var svolítið eins og liðin væru að bíða eftir lokaflautinu. Þegar það svo kom braust út mikil gleði enda annar titill vikunnar í höfn, geri aðrir betur! Við óskum stelpunum sem og þeim sem að liðinu koma til hamingju með frábæra viku.
Meistarar Meistaranna! Smelltu á myndina til að sjá fleiri myndir frá Þóri Tryggva af leiknum
Frammistaðan í dag mjög fín, stelpurnar spiluðu leikinn af öryggi og sigldu góðum sigri. Vissulega hefði verið gaman að fá fleiri færi en nýtingin á færunum var til fyrirmyndar. Á þessum tímapunkti er líka eðlilegt að liðið eigi svolítið inni en annars mjög jákvæð spilamennska hjá liðinu.
Síðari hluti Deildabikarsins og svo leikurinn í dag gefa því góða raun fyrir sumarið og verður áhugavert að sjá hvernig stelpurnar koma inn í Pepsi deildina en fyrsti leikur liðsins er í Grindavík 5. maí næstkomandi. Á næstu dögum kemur svo spá forráðamanna liðanna og verður einmitt gaman að sjá hvaða gengi stelpunum verður spáð í sumar.