Þór/KA á toppinn með glæsisigri

Fótbolti
Þór/KA á toppinn með glæsisigri
Sandra María sá um Blikana (mynd: Þ.Tr.)

Það var svo sannarlega stórslagur á Þórsvelli í dag þegar topplið Breiðabliks kom í heimsókn á Þórsvöll í uppgjöri efstu tveggja liða Pepsi deildar kvenna. Sigur myndi koma okkar liði í toppsætið en tap hefði komið liðinu í erfiða stöðu í toppbaráttunni og því ljóst að stelpurnar hreinlega yrðu að sækja til sigurs.

Þór/KA 2 - 0 Breiðablik
1-0 Sandra María Jessen ('30)
2-0 Sandra María Jessen ('84)

Eftir tap í Bikarnum og markalaust jafntefli í síðustu umferð voru smá blikur á lofti hjá Þór/KA fyrir leik dagsins enda hafa Blikar spilað virkilega vel það sem af er sumri og með fullt hús stiga.

Leikurinn fór tiltölulega rólega af stað en það var samt strax að sjá að okkar lið var vel gírað í leikinn og ætlaði sér að hrista af sér vonbrigði síðustu leikja. Sandra María Jessen var aðgangshörð upp við mark gestanna og átti hún meðal annars skot í slá eftir rúmlega kortérs leik.

Það var svo eftir hálftíma leik að fyrsta markið leit dagsins ljós en það var einmitt fyrrnefnd Sandra María sem það gerði með skalla eftir mjög flottan undirbúning hjá Huldunum tveim þeim Huldu Ósk Jónsdóttur og Huldu Björg Hannesdóttur.

Þór/KA komið í 1-0 og það afar sanngjarnt en Breiðablik komst lítt ávegis gegn mjög vel skipulögðum varnarleik okkar liðs. Markið gaf stelpunum greinilega aukið sjálfstraust og ljóst að Donni hafði lagt leikinn vel upp. Mörkin urðu ekki fleiri í fyrri hálfleiknum og spilamennskan til fyrirmyndar.

Síðari hálfleikur spilaðist mjög svipað og sá fyrri, Þór/KA varðist mjög vel og var hættulegri aðilinn. Þrátt fyrir töluverða yfirburði í leiknum þá er alltaf viss hætta þegar forskotið er eitt mark. Það var því ansi góð tilfinning þegar Sandra María tvöfaldaði forystuna á 84. mínútu eftir flotta sókn, Sandra Mayor keyrði á Blikavörnina, kom boltanum svo til hliðar á nöfnu sína Jessen sem kláraði af stakri snilld.

Stelpurnar fögnuðu ógurlega enda kláraði markið leikinn og þrjú stig örugg í hús. Lokatölur 2-0 og stelpurnar eru vægast sagt komnar til baka, eru þær fyrstu til að leggja Breiðablik að velli í sumar og lyfta sér upp á toppinn. Það var frábært að sjá til stelpnanna í dag og algjörlega frábært að sjá aftur leikgleðina sem skein úr andlitum þeirra.

Nú höldum við bara áfram á þessari braut en næsti leikur er einnig mjög krefjandi en það er útileikur gegn sterku liði Vals.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is