Tap gegn ÍA

Fótbolti
Tap gegn ÍA
Mynd - Fotbolti.net

KA beið í gær í lægri hlut gegn Skagamönnum í 18. umferð Pepsi deildar karla.

ÍA 2 – 0 KA

0 – 0 Varið víti: Srdjan Rajkovic (’40)
1 – 0 Stefán Teitur Þórðarson (’60)
2 – 0  Steinar Þorsteinsson (’70)
2 – 0 Rautt Spjald: Callum Williams (’90)

Lið KA:

Rajko, Hrannar Björn, Vedran, Callum, Darko, Aleksandar, Archange, Almarr, Hallgrímur Mar, Ásgeir og Elfar Árni.

Bekkur:

Aron Elí, Ólafur Aron, Guðmann, Steinþór Freyr, Davíð Rúnar, Daníel og Bjarki Þór.

Skiptingar:

Archange út – Daníel inn (’46)
Almarr út – Ólafur Aron inn (’51)
Hrannar Björn út – Davíð Rúnar inn (’89)

KA menn hófu leikinn betur en heimamenn og voru töluvert meira með boltann en lítið var þó um hættuleg marktækifæri. Eftir því sem leið á hálfleikinn færðist meira jafnræði í leikinn og fóru heimamenn í ÍA að færa sig upp á skaftið í sóknaraðgerðum sínum.

Eftir rúmlega hálftíma leik áttu Skagamenn hættulegasta færi fyrri hálfleiksins þegar að Steinar Þorsteinsson fékk boltann í vítateig KA og átti hörku skot á markið sem Rajko varði beint á Stefán Teit sem var í algjöru dauðafæri en skaut beint aftur á Rajko, sem gerði vel að halda boltanum.

Rétt fyrir hálfleik fengu síðan Skagamenn vítaspyrnu þegar að Almarr braut á Steinari Þorsteinssyni við endalínu í vítateignum. Líkt og í síðasta leik gerði Rajko sér lítið fyrir og varði vítaspyrnuna frá Þórði Þorsteini og varði einnig frákastið og bjargaði því að heimamenn færu ekki með forystuna inn í hálfleik. Markalaust í leikhléi.

Heimamenn ÍA mættu miklu ákveðnari til leiks í síðari hálfleik en lið KA og voru grimmar og betri á flestum sviðum. Á 60. mínútu komust þeir yfir þegar að Arnar Már Guðjónsson átti fast skot í átt að marki sem Rajko varði út í teiginn en Stefán Teitur var fyrstur að átta sig og fylgdi skotinu á eftir af stuttu færi í teignum og kom ÍA yfir 1-0.

Tíu mínútum síðar bættu Skagamenn í forystuna með keimlíku marki. Þá átti Albert Hafsteinsson skot utan af velli sem Rajko náði ekki að halda og Steinar Þorsteinsson fylgdi eftir og staðann því 2-0 fyrir heimamenn.

KA liðið reyndi að leggja meiri þunga í sóknina í restina en töluvert vantaði upp á í sóknarleiknum í gær og var lítil hreyfing á liðinu og gæði sendinga ekki nægilega góð. Elfar Árni komst tvisvar nálægt því að minnka muninn fyrir KA en inn vildi boltinn ekki. Það var svo á 90. mínútu sem Callum fékk að líta rauða spjaldið fyrir tæklingu á Skagamann fyrir miðjum velli og luku því KA menn leiknum manni færri.

Nivea KA-maður leiksins: Darko Bulatovic (Var öflugur í bakverðinu og átti nokkra góða spretti upp vinstri vænginn og fínar fyrirgjafir sem KA liðið hefði mátt nýta sér betur.)

Það er skammt stórra högga á milli og er næsti leikur KA strax á fimmtudaginn en þá fáum við topplið  Vals í heimsókn á Akureyrarvöll og hefst sá leikur kl. 17.00 og vonumst við til að sjá sem flesta KA menn á vellinum á þessum stórleik. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is