Flýtilyklar
Tap gegn Fylki í Egilshöllinni
KA mætti Fylkismönnum í Egilshöll í dag í annarri umferð Pepsi deildar karla. KA var þarna að leika sinn annan leik í Egilshöllinni en liðið gerði 2-2 jafntefli við Fjölni í fyrstu umferðinni en Fylkismenn höfðu tapað 1-0 gegn Víkingi í sínum leik.
Fylkir 2 - 1 KA
1-0 Emil Ásmundsson ('5)
2-0 Jonathan Glenn ('41)
2-1 Orri Sveinn Stefánsson ('51, sjálfsmark)
Leikurinn hófst á svipuðum nótum og fyrsti leikur sumarsins því Emil Ásmundsson kom Fylkismönnum yfir strax á 5. mínútu þegar hann þrumaði að marki fyrir utan teiginn og Cristian Martinez í marki KA kom engum vörnum við. KA liðið þar með strax komið í þá erfiðu stöðu að þurfa að berjast fyrir því að jafna metin.
Erfiðlega gekk að fá flot á bolta og skapa færi og nokkuð ljóst að Fylkismenn höfðu skipulagt leik sinn vel. Þegar leið á fyrri hálfleikinn fór KA liðið að ógna betur og náði betri stjórn á leiknum. Það var því ansi mikið högg þegar Fylkismenn bættu við öðru marki sínu skömmu fyrir hlé þegar Jonathan Glenn renndi boltanum í netið eftir gott uppspil hjá Emil Ásmundssyni.
Staðan var því 2-0 í hálfleik og ljóst að mikið verk væri fyrir höndum í þeim síðari ef KA liðið ætlaði sér eitthvað útúr leiknum. Það byrjaði vel því Orri Sveinn Stefánsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 51. mínútu eftir fyrirgjöf frá Hrannari Birni Steingrímssyni.
Markið gaf okkar liði kraft og enn nóg eftir af leiknum. Bæði lið reyndu hvað þau gátu til að bæta við mörkum og var síðari hálfleikurinn hin ágætasta skemmtun. Besta færið kom í upphafi uppbótartíma þegar Elfar Árni Aðalsteinsson náði föstu skoti úr teignum en Aron Snær Friðriksson í marki Fylkis var vel staðsettur og varði vel.
Pressa KA liðsins undir lok leiks var gríðarleg en Fylkisliðið hélt út og sigldi inn 2-1 sigri. KA er því með 1 stig eftir fyrstu tvær umferðir deildarinnar og ljóst að liðið þarf að loka betur vörninni ef stigasöfnunin á að ganga betur í næstu leikjum.
Varnartröllið Guðmann Þórisson hefur nú afplánað sitt tveggja leikja bann og má því spila í næsta leik sem er heimaleikur gegn ÍBV laugardaginn 12. maí. Við hvetjum ykkur öll til að mæta á Akureyrarvöll og styðja liðið til sigurs.