Stórsigur Þórs/KA í Hafnarfirðinum

Fótbolti
Stórsigur Þórs/KA í Hafnarfirðinum
Andrea Mist skoraði í dag (Mynd: Sævar Geir)

Það virðist fátt geta stöðvað Íslandsmeistara Þórs/KA í upphafi sumars en stelpurnar mættu í Kaplakrika í dag og mættu liði FH. Fyrir leikinn höfðu stelpurnar unnið alla leiki sumarsins og það varð engin breyting á því eftir leik dagsins.

FH 1 - 4 Þór/KA
0-1 Sandra Mayor ('13)
0-2 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('43)
0-3 Sandra Mayor ('52)
0-4 Andrea Mist Pálsdóttir ('55)
1-4 Marjani Hing-Glover ('84)

Eins og oft áður þá hófu leikmenn Þórs/KA leikinn af miklum krafti og settu mikla pressu á heimastúlkur. Plan dagsins var greinilega að ná marki snemma en þegar liðin mættust í fyrra á þessum velli þurftu stelpurnar að bíða fram að 89. mínútu eftir eina marki leiksins sem var sigurmark Karenar Maríu Sigurgeirsdóttur.

Sandra Mayor sá til þess að biðin var ekki löng að þessu sinni en Bianca Sierra átti aukaspyrnu á 13. mínútu sem FH stúlkur skölluðu frá en þar lúrði Borgarstjórinn og þrumaði knettinum stórglæsilega í markið og staðan orðin 0-1. Markið hafði legið í loftinu og ljóst að stelpurnar ætluðu sér að gera útum leikinn.

Johanna Henriksson lék sinn fyrsta leik í marki Þórs/KA í dag og hún gerði virkilega vel þegar Selma Dögg Björgvinsdóttir slapp ein í gegn en Johanna mætti henni vel og lokaði á hana. FH reyndi hvað það gat til að jafna metin og náðu um tíma ágætis taki á leiknum án þess þó að skapa nein úrvalsfæri.

En stelpurnar náðu aftur að gefa í og markamaskínurnar Sandra María Jessen og Sandra Mayor áttu báðar ágætistilraunir upp við mark heimastúlkna áður en varnarjaxlinn hún Arna Sif Ásgrímsdóttir tvöfaldaði forystuna með laglegu skallamarki eftir hornspyrnu frá Önnu Rakel Pétursdóttur. Markið kom skömmu fyrir hálfleik og ljóst að staðan væri orðin ansi vænleg.

Lið Þórs/KA er þekkt fyrir að verja forystur sínar ansi vel en það var greinilegt að stelpurnar ætluðu sér meira því strax á 52. mínútu skoraði Sandra Mayor sitt annað mark í dag þegar hún skoraði listilega eftir góða sendingu frá Biöncu Sierra.

Andrea Mist Pálsdóttir gerði svo fjórða mark liðsins skömmu síðar eftir gott spil með Söndru Maríu, Andrea var komin í fína stöðu þegar Arna Dís Arnþórsdóttir virtist keyra hana niður en af sinni gríðarlegu hörku náði Andrea að pota í boltann á meðan hún féll til jarðar og inn fór boltinn, það var því engin ástæða til að dæma vítaspyrnu!

Staðan 0-4 og í kjölfarið datt leikurinn svolítið niður, FH liðið játaði sig sigrað enda að ég fullyrði ómögulegt að koma til baka úr þessari stöðu gegn jafn skipulögðu liði og okkar lið er. Þegar um 10 mínútur lifðu leiks skullu Sandra María og Andrea Mist saman og þar sem Donni var búinn að gera þrjár skiptingar þurftu stelpurnar að spila einum færri á meðan hugað var að Söndru.

Þetta nýttu FH-ingar sér því Marjani Hing-Glover minnkaði muninn á 84. mínútu með skalla. Sandra María kom skömmu síðar aftur á völlinn og kláraði leikinn. Fleiri urðu mörkin ekki og mjög svo sannfærandi 1-4 sigur staðreynd.

Stelpurnar eru því enn með fullt hús stiga og bæta áfram markatöluna sína en þær eru búnar að gera 16 mörk í 5 leikjum og fá aðeins á sig 2 mörk. Breiðablik hefur sinn fimmta leik á þriðjudaginn þegar þær mæta KR og verður áhugavert að sjá hvort þær nái að jafna okkar frábæra lið að stigum.

Næsti leikur er á laugardaginn þegar Þór/KA tekur á móti Stjörnunni í stórleik 16. umferðar Mjólkurbikarsins. Leikurinn fer fram á Þórsvelli og hefst kl. 16:30 og hvetjum við alla til að mæta og styðja stelpurnar til sigurs enda ætla þær sér sigur bæði í deild og í bikar, áfram Þór/KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is