Flýtilyklar
Stórsigur í Ólafsvík
KA mætti til Ólafsvíkur annan í Hvítasunnu og fór þaðan með öll stigin eftir öruggan 1-4 sigur þar sem að Emil Sigvardsen Lyng gerði þrennu.
Víkingur Ó. 1 - 4 KA
0-1 Emil Sigvardsen Lyng ('3) Stoðsending: Ásgeir
0-2 Emil Sigvardsen Lyng ('21) Stoðsending: Darko
0-3 Elfar Árni Aðalsteinsson ('48) Stoðsending: Darko
1-3 Gunnlaugur Hlynur Birgisson ('86)
1-4 Emil Sigvardsen Lyng ('88, víti) Stoðsending: Ásgeir
Umfjöllun RÚV um leikinn þar sem sjá má öll mörkin
Lið KA:
Rajko, Hrannar Björn, Aleksandar, Callum, Darko, Almarr, Ólafur Aron, Ásgeir, Hallgrímur Mar (F), Emil og Elfar Árni.
Bekkur:
Aron Dagur, Baldvin, Steinþór Freyr, Brynjar Ingi, Ívar Örn, Daníel og Bjarni.
Skiptingar:
Elfar Árni út – Steinþór Freyr inn (’76)
Darko út – Ívar Örn inn (’81)
Emil út – Baldvin inn (’89)
Leikurinn var varla byrjaður þegar fyrsta markið leit dagsins ljós en Elfar Árni Aðalsteinsson átti góða sendingu inn fyrir vörn Ólsara og Ásgeir Sigurgeirsson brunaði í gegn, vippaði boltanum skemmtilega yfir Christian í markinu og Emil Sigvardsen Lyng potaði á endanum boltanum í netið af stuttu færi.
Fyrir var gríðarleg stemning hjá þeim fjölmörgu KA mönnum sem höfðu lagt land undir fót og mætt á völlinn og varð markið til þess að hópurinn þagnaði ekki það sem eftir lifði leiks.
Heimamenn héldu boltanum ágætlega eftir markið en fundu litlar opnanir á vörn KA en Elfar Árni var óheppinn á 12. mínútu þegar hann náði ekki skoti á markið úr upplögðu færi innan teigs. Það var ljóst að vörn Víkinga átti í miklum erfiðleikum með sóknarhraða okkar stráka og benti allt til þess að KA myndi bæta við mörkum í leiknum.
Það gerðist á 21. mínútu þegar Emil skoraði öðru sinni, nú með skalla eftir langt innkast frá Darko Bulatovic. Emil fagnaði markinu af mikilli snilld og leynir sér ekki að það er skemmtilegur andi bæði hjá leikmönnum og stuðningsmönnum KA þessa dagana.
Ólsarar gáfu í eftir markið enda komnir í erfiða stöðu og náðu tvívegis að skapa sér úrvalsfæri en þeir fundu ekki leið til að skora hjá Rajko og þá var ekkert mark nógu stórt svo að boltinn færi inn. Hálfleikstölur voru því 0-2 og helsta spurningin hvoru megin þriðja mark leiksins kæmi enda var leikurinn þrælskemmtilegur og frekar opinn.
Ekki þurftu menn að bíða lengi eftir svari við þeirri spurningu en Elfar Árni skoraði gott mark strax í upphafi síðari hálfleiks eftir frábæran undirbúning hjá Darko sem var að leggja upp sitt annað mark í leiknum. Darko kom sér í góða stöðu á kantinum og renndi boltanum laglega á Elfar Árna sem klikkar ekki á svona færum.
Staðan orðin 0-3 og ekki nokkur spurning að þessum leik var í raun lokið. Eins og ég kom að áður var varnarlína heimamanna í miklum vandræðum með sprengikraftinn í sóknarleik okkar liðs og var í raun ótrúlegt að liðinu tækist ekki að bæta við mörkum.
Gunnlaugur Hlynur Birgisson skoraði hinsvegar stórglæsilegt mark á 86. mínútu fyrir Víkinga þegar hann smellhitti boltann af löngu færi í slá og inn en Víkingar reyndu mikið af langskotum í leiknum en flest þeirra hittu ekki á markið.
En til að slökkva endanlega á þá litlu von heimamanna að koma til baka í leiknum sótti Ásgeir Sigurgeirsson vítaspyrnu í næstu sókn eftir markið sem Emil Lyng skoraði úr. Forystan því aftur orðin þrjú mörk og Emil kominn með þrennu. Þetta er fyrsta þrenna Emils á ferlinum og fyrsta þrenna leikmanns fyrir KA síðan Ævar Ingi Jóhannesson gerði þrennu í 7-0 sigri á Magna í Borgunarbikarnum 13. maí 2014!
Lokatölur því 1-4 og liðið komið aftur á sigurbraut eftir svekkjandi lokamínútur í síðustu tveimur leikjum á undan. Spilamennskan mjög góð og gaman að sjá hve tilbúnir menn eru að stíga upp þegar breytinga er þörf á liðsskipaninni, við erum einfaldlega með frábært lið í höndunum. Þá verður líka að minnast á hve stórkostlega stuðningsmenn félagið býr að en mikill fjöldi gulra og glaða KA manna mætti á leikinn og studdi liðið allan leikinn, takk fyrir frábæran stuðning!
KA-maður leiksins: Emil Sigvardsen Lyng (Var skeinuhættur við mark heimamanna, skilaði þremur mörkum og sýndi mikla baráttu. Emil verið að sýna góða spilamennsku í byrjun sumars og er að sýna það að hann er frábær viðbót við öfluga sóknarlínu KA.)
Nú tekur við smá pása vegna landsleiks Íslands og Króatíu en næsti leikur KA er heimaleikur gegn ÍA miðvikudaginn 14. júní klukkan 19:15. Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta enda liðið búið að standa sig frábærlega í byrjun tímabils og nú er bara að halda áfram. Sjáumst á Akureyrarvelli og áfram KA!