Flýtilyklar
KA valtaði yfir Ólsara
KA vann í kvöld öruggan 5-0 sigur Víkingi frá Ólafsvík. Elfar Árni og Almarr sáu um markaskorun KA í kvöld í mögnuðum sigri þar sem allt liðið spilaði frábærlega.
KA 5 – 0 Víkingur Ó.
1 – 0 Almarr Ormarsson (’10)
2 – 0 Almarr Ormarsson (’35) Stoðsending: Elfar Árni
3 – 0 Elfar Árni Aðalsteinsson (’63) Stoðsending: Hallgrímur Mar
4 – 0 Elfar Árni Aðalsteinsson (’67) Stoðsending: Emil Lyng
5 – 0 Elfar Árni Aðalsteinsson (’76) Stoðsending: Hallgrímur Mar
Lið KA:
Rajko, Hrannar Björn, Vedran, Callum, Darko, Archange, Almarr, Hallgrímur Mar, Ásgeir, Emil og Elfar Árni.
Bekkur:
Aron Dagur, Ólafur Aron, Steinþór Freyr, Davíð Rúnar, Daníel, Angantýr Máni og Bjarki Þór.
Skiptingar:
Almarr út – Ólafur Aron inn (’59)
Elfar Árni út – Bjarki Þór inn (’77)
Archange út – Davíð Rúnar inn (’82)
Leikurinn í dag hófst á rólegum nótum og voru bæði lið nokkrar mínútur að finna taktinn. Eftir einungis tíu mínútna leik leit fyrsta markið hins vegar ljós. Þá áttu Ásgeir og Hrannar Björn gott samspil út á kannti sem lauk með því að Hrannar gaf fyrir markið á Emil sem skallaði að marki og þurfti markvörður Ólsara að hafa sig allann við til að verja en það vildi ekki betur til en svo að Almarr fylgdi þessu fast á eftir með skalla af stuttu færi og kom KA 1-0 yfir.
Eftir markið var KA með mikla yfirburði inn á vellinum og var eins og markið hefði slegið gestina út af laginu en þess ber þó að geta að fyrirliði þeirra Guðmundur Steinn þurfti að yfirgefa völlinn eftir aðeins örfáar mínútur vegna meiðsla og skarð fyrir skildi fyrir Ólsara.
KA var mikið meira með boltann og byggði liðið sóknarleikinn upp af rólegheitum og breikuðu síðan hratt á gestina þegar að tækifærin gáfust. Þegar að tíu mínútur voru eftir að fyrri hálfleik þá átti Ásgeir sendingu á Elfar Árna í teignum sem átti laglegan snúning og gaf svo hnitmiðaða sendingu inn á Almarr sem skaut utanfótar skoti framhjá markverði gestanna og í netið og kom KA í 2-0. Verðskulduð forysta sem KA liðið fór með inn í hálfleikinn og spilamennska liðsins mjög góð.
Gestirnir úr Ólafsvík hófu seinni hálfleikinn af miklum krafti og voru allt í öllu á upphafsmínútunum. Eftir aðeins 4 mínútur var dæmd vítaspyrna á Callum eftir að hann fór upp í skallaeingvígi við Egil Jónsson sem datt niður í teignum. KA menn mótmæltu dómnum harðlega og fannst þetta rangur dómur. Á punktinn steig Kenan Turudija og gerði Rajko sér lítið fyrir og varði spyrnuna og staðan því en 2-0 fyrir KA.
Við vörsluna frá Rajko fór KA liðið upp á tærnar og tvíefldist. Liðið setti í fimmta gír og leit ekki aftur til baka. Á 63. mínútu átti Darko langan sprett upp vinstri vænginn og endaði boltinn hjá Hallgrími Mar sem fór illa með varnarmann Víkings og gaf fyrir á Elfar Árna sem kláraði færið vel á nærstönginni og kom KA í 3-0. Örfáum mínútum seinna átti Emil Lyng góða fyrirgjöf fyrir markið sem Elfar Árni tók niður í teignum og lagði boltann fyrir sig og skoraði fjórða mark KA og sitt annað mark í leiknum. 4-0 fyrir KA og héldu KA liðinu enginn bönd.
Elfar Árni var hins vegar hvergi nærri hættur og 8 mínútum síðar fullkomnaði hann þrennuna. Þá átti Hallgrímur Mar hornspyrnu sem Elfar Árni gerði vel að skalla í jörðina og inn og kom KA í 5-0.
Gestirnir komust svo nálægt því að minnka muninn undir restina þegar að þeir skutu í slá en Vedran gerði vel að hreinsa boltann burtu af marklínu og tryggja að KA myndi halda hreinu annan leikinn í röð.
KA-maður leiksins: Elfar Árni Aðalsteinsson (Skoraði þrennu á 13 mínútum og gaf auk þess magnaða stoðsendingu í öðru marki Almars. Stórkostlegur leikur hjá Elfari Árna. Einnig áttu Almarr og Rajko sem og allt KA liðið flottan leik.)
Nú tekur við örstutt landsleikjahlé og er næsti leikur KA ekki fyrr en 10. september þegar að liðið heldur upp á Skaga og etur kappi við ÍA í 18. umferð Pepsi-deildarinnar. Hefst sá leikur kl. 17.00 og vonumst við til að sjá sem flesta KA menn leggja leið sína á völlinn og styðja við liðið. Áfram KA!