Flýtilyklar
KA sekúndum frá sigri í Víkinni
KA mætti í Víkina í dag í algjörum sex stiga leik en fyrir leikinn var KA enn í baráttu um Evrópusæti auk þess að eiga enn möguleika á falli. Víkingar voru þremur stigum á eftir okkar mönnum og þurftu því á sigri að halda til að fjarlægjast fallbaráttuna.
Víkingur R. 2 - 2 KA
0-1 Aleksandar Trninic ('10)
0-2 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('45)
1-2 Geoffrey Castillion ('83)
2-2 Alex Freyr Hilmarsson ('95)
Tufa þurfti að gera nokkrar breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik en Daníel Hafsteinsson kom inn eftir bann, Hrannar Björn Steingrímsson var hinsvegar í banni, Vladimir Tufegdzic mátti ekki spila eftir að hafa komið frá Víking auk þess sem enn eru meiðslavandræði að plaga þó nokkra í hópnum.
KA liðið byrjaði leikinn vel og Hallgrímur Mar átti geggjaða sendingu inn fyrir á Ásgeir sem var kominn í úrvalsfæri en Andreas Larsen varði vel frá honum. Við þurftum þó sem betur fer ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu en það var Aleksandar Trninic sem það gerði þegar hann þrumaði aukaspyrnu undir veginn og beint í netið. Virkilega gott mark og það sást bersýnilega að það hafði mikla þýðingu fyrir Aleksandar.
Leikurinn var tiltölulega opinn og skemmtilegur en bæði lið sóttu til sigurs. Heimamenn tóku yfirhöndina undir lok fyrri hálfleiks og reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin, það var því ansi sætt þegar KA tvöfaldaði forystuna skömmu fyrir hlé en það gerði Hallgrímur Mar með laglegu skoti fyrir utan teig eftir sendingu frá Ásgeiri.
Staðan því 0-2 í hálfleik og útlitið ansi gott, Steinþór Freyr Þorsteinsson hóf leikinn en varð fyrir einhverju hnjaski og þurfti að koma útaf fyrir Ými Má Geirsson. Síðari hálfleikur var ekki jafn opinn og sá fyrri og hafði maður á tilfinningunni að KA myndi sigla sigrinum nokkuð örugglega í hús.
Bjarni Mark Antonsson og Geoffrey Castillion skölluðust saman og Bjarni þurfti að yfirgefa völlinn í kjölfarið. Í hans stað kom Hallgrímur Jónasson sem hefur verið frá vegna meiðsla en athygli vakti að hann lék á miðjunni. Hvort að fjarvera Bjarna hefði svona mikil áhrif skal ég ekki segja en heimamenn sóttu án afláts og Bjarni Páll átti hörkuskalla upp í markhornið en Aron Elí Gíslason varði með tilþrifum!
En markið kom á 83. mínútu þegar Geoffrey Castillion skoraði eftir sendingu innfyrir og leikurinn skyndilega galopinn. KA fékk tækifæri á að klára leikinn eftir markið en Ýmir Már og Daníel tókst hvorugum að koma boltanum í netið.
Það var svo á 95. mínútu að Víkingar jöfnuðu metin eftir langt innkast en Alex Freyr Hilmarsson fékk boltann inn í teignum og kláraði vel. Gríðarlega svekkjandi að missa sigurinn frá sér á lokasekúndunni enda hafði KA leitt leikinn og virtist vera öruggt með 3 stig.