Jafntefli í fyrsta leik sumarsins

Fótbolti
Jafntefli í fyrsta leik sumarsins
Danni gerði fyrsta mark KA í dag(mynd: Sævar Geir)

KA sótti Fjölnismenn heim í Egilshöllina í fyrstu umferð Pepsi deildar karla í dag. Mikil eftirvænting hefur verið fyrir sumrinu enda gengi KA liðsins verið mjög gott á undirbúningstímabilinu og spá spekinga í boltanum verið jákvæð fyrir liðið.

Fjölnir 2 - 2 KA
1-0 Ægir Jarl Jónasson ('2) 
1-1 Daníel Hafsteinsson ('14) 
2-1 Birnir Snær Ingason ('17) 
2-2 Ásgeir Sigurgeirsson ('38)

Áhorfendur voru margir hverjir enn að koma sér fyrir þegar Fjölnismenn skoruðu fyrsta markið strax á 2. mínútu. Ægir Jarl Jónasson skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Birni Snæ Ingasyni og draumabyrjun heimamanna.

KA liðið hefur þó verið duglegt að skora á undirbúningstímabilinu og skömmu síðar jafnaði Daníel Hafsteinsson metin þegar hann renndi boltanum laglega í netið eftir að hann slapp einn í gegn. Fjölnismenn voru þó ekki lengi að ná forystunni á ný því Birnir Snær skoraði með góðu skoti í stöngina og inn þremur mínútum eftir mark Daníels.

Áfram var mikið líf og fjör í leiknum og voru bæði lið að sækja grimmt. Það var einungis spurning hvort liðið myndi skora næst og það var sem betur fer okkar lið sem náði því. Ásgeir Sigurgeirsson þrumaði boltanum úr þröngu færi og Þórður í marki Fjölnis gat lítið gert, staðan orðin 2-2 og mikið fjör hjá stuðningsmönnum KA.

Ekki voru skoruð fleiri mörk í fyrri hálfleik en eins og tölurnar gefa upp var hann bráðfjörugur og skemmtilegur.

Hvort að þjálfarar liðanna hafi ekki verið jafn ánægðir með leikinn eins og áhorfendur skal maður ekki segja en liðin mættu töluvert meira varnarsinnuð í síðari hálfleikinn og var lítið um færi. Á 74. mín­útu fékk Hall­grím­ur Mar Steingrímsson sendingu fram en Þórður sá við honum úr erfiðu færi. Besta færi Fjölnis fékk Val­m­ir Ber­isha í uppbótartíma en skot hans var réttframhjá og lokatölur því 2-2.

Fyrsta stig sumarsins er því komið í hús og er það jákvætt. Liðið lenti tvívegis undir en kom til baka sem sýnir karakterinn sem býr í strákunum. Spilamennskan var koflótt eins og oft vill verða í upphafi tímabils en nú er bara að byggja ofan á þessa frammistöðu og halda áfram.

Nivea maður leiksins Hallgrímur Mar Steingrímsson, Grímsi var flottur í dag, barðist og átti þátt í flestum sóknarlotum KA í dag.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is