Góður sigur á Fjölni

Fótbolti
Góður sigur á Fjölni
Elfar Árni fagnar markinu sínu (mynd: Sævar Geir)

KA lagði Fjölnismenn að velli í kvöld á Akureyrarvelli 2-0. Staðan í hálfleik var 1-0 fyrir KA og bætti liðið við einu marki í þeim síðari og vann að lokum sannfærandi sigur.

KA 2 – 0 Fjölnir

1 – 0 Elfar Árni Aðalsteinsson (’19) Stoðsending: Emil Lyng
2 – 0 Emil Sigvardsen Lyng  (’58) Stoðsending: Hallgrímur Mar

Lið KA:

Rajko, Bjarki Þór, Guðmann, Ívar Örn, Darko, Aleksandar, Almarr, Ásgeir, Hallgrímur Mar, Emil og Elfar Árni.

Bekkur:

Aron Dagur, Baldvin, Ólafur Aron, Hrannar Björn, Daníel, Archange og Áki.

Skiptingar:

Darko út – Ólafur Aron inn (’31)
Emil út – Archange inn (’76)
Ásgeir út – Baldvin inn (’93) 

Leikurinn í kvöld var fyrsti heimaleikur KA í efstu deild í 13 ár og var eftirvæntingin fyrir leiknum mikil í kringum félagið. Það virtist hins vegar hafa lítil áhrif á leikmenn liðsins sem voru rólegir og yfirvegaðir í öllum sínum aðgerðum rétt innstilltir á verkefni kvöldsins.

KA komst verðskuldað yfir eftir 19 mínútna leik þegar að Darko átti langt innkast sem Emil skallaði áfram á Elfar Árna sem skallaði boltann í markið af stuttu færi.  Elfar Árni sem fyrr eins og gammur í teignum og kom KA í 1-0.

Eftir rúmlega hálftíma leik var brotið harkalega á Darko við hliðarlínu og þurfti hann að fara útaf meiddur sökum þess. Í hans stað kom Ólafur Aron inn á miðjuna og Aleksandar var færður í miðvörðin og Ívar í bakvörðin.  

KA liðið sem fyrr elfdist við mótlæðið og þeir leikmenn sem komu inn stóðu fyrir sínu. Allir með allt á hreinu. KA tókst hins vegar ekki að bæta við öðru marki og staðan því 1-0 KA í vil í hálfleik.

Síðari hálfleikur var rétt hafinn þegar að Hallgrímur Mar var óvænt kominn í dauðafæri eftir að boltinn skopaði fyrir hann inn í markteig og skot hans af stuttu færi í slánna og yfir.

Tíu mínútum síðar átti Hallgrímur Mar svo frábæra fyrirgjöf á Emil Lyng sem kom á hárréttum tíma á fjærstöngina og skilaði boltanum í netið af stuttu færi og jók forystu KA í 2-0.

Eftir markið datt KA liðið aðeins aftar og Fjölnismenn sóttu eilítið en uppskáru ekki mark og 2-0 sigur KA því staðreynd. KA liðið sýndi í dag mikinn styrkleika að þrátt fyrir mikil meiðsli í leikmannahópnum þá var liðið þétt aftur sem fyrr og skeinuhættir sóknarlega. Mjög erfitt var að velja mann leiksins þar sem liðsframistaðan var mögnuð og lögðu allir leikmenn sitt að mörkum í kvöld.

KA-maður leiksins: Aleksandar Trninic (Var magnaður á miðjunni og vörninni í dag. Sterkur í loftinu og návígum og sem fyrr með hárnákvæmar sendingar fram völlinn.)

Stutt er í næsta leik KA. Hann er á miðvikudaginn í bikarnum þegar að KA fær ÍR í heimsókn í 32-liða úrslitum Borgunarbikarsins. Hefst leikurinn kl. 18:00 og hvetjum við alla KA-menn að fjölmenna á völlinn. Áfram KA!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is