Flýtilyklar
Fyrsta tapið á heimavelli staðreynd
KA tók á móti Stjörnunni í 9. umferð Pepsi deildarinnar á Akureyrarvelli í dag. Þetta var síðasti leikurinn fyrir stutt HM frí en KA hafði fengið 7 af 8 stigum sínum í sumar á heimavelli og var greinilegt að menn ætluðu sér að klífa upp töfluna með sigri í dag.
KA 1 - 2 Stjarnan
0-1 Þorsteinn Már Ragnarsson ('59)
1-1 Ásgeir Sigurgeirsson ('65)
1-2 Hilmar Árni Halldórsson ('76, víti)
Fyrrum leikmaður KA hann Ævar Ingi Jóhannesson fékk algjört dauðafæri í upphafi leiks fyrir gestina þegar hann fékk sendingu inn fyrir vörnina, fór framhjá Cristian Martinez í marki KA en skot hans var rétt framhjá og KA slapp með skrekkinn.
Stuttu síðar fékk Ásgeir Sigurgeirsson gott færi hinum megin á vellinum en Haraldur Björnsson í marki Stjörnunnar sá við honum, Ásgeir reyndi að ná frákastinu en uppskar hornspyrnu. Leikurinn róaðist töluvert í kjölfarið en gestirnir voru sterkari aðilinn en þeir léku með vindinn í bakið í fyrri hálfleiknum.
Cristian Martinez gerði gríðarlega vel á lokasekúndum fyrri hálfleiks þegar hann varði og hélt skoti frá Þorsteini Má Ragnarssyni sem hafði komið sér í gott færi utarlega í teignum. Staðan því markalaus þegar flautað var til hálfleiks.
KA hóf síðari hálfleik af krafti og var líklegri aðilinn, Elfar Árni Aðalsteinsson fékk frábæra sendingu inn fyrir frá Ásgeiri á 49. mínútu en skot hans fór í slánna og yfir. Bjarni Mark Antonsson átti stuttu síðar góðan skalla en Haraldur sá við honum og sá til þess að enn var jafnt.
Strákarnir voru með gott tak á leiknum og það var því ansi mikið kjaftshögg þegar Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði fyrir Stjörnuna eftir varnarmistök á 59. mínútu. En KA liðið er þekkt fyrir flottan karakter og skömmu síðar skoraði Ásgeir stórkostlegt mark eftir að hafa leikið á þrjá varnarmenn í teignum. Ásgeir skoraði þarna í þriðja leiknum í röð gegn Garðbæingum!
Þegar kortér lifði leiks braut Aleksandar Trninic klaufalega af sér innan teigs og vítaspyrna dæmd, Hilmar Árni Halldórsson skoraði af öryggi úr spyrnunni og kom þar með gestunum aftur yfir. KA liðið reyndi hvað það gat til að jafna metin á ný en það gekk ekki og 1-2 tap staðreynd. Ákaflega fúlt að fá ekkert útúr leiknum enda var spilamennskan góð en bæði mörk Stjörnunnar komu uppúr varnarmistökum hjá okkar liði og ljóst að við verðum að hætta að gefa svona færi á okkur.
Nivea KA-maður leiksins Ásgeir Sigurgeirsson (Ásgeir var mjög flottur í dag, gafst aldrei upp og bjó til svæði hægri vinstri með hlaupum sínum. Markið hans var stórkostlegt sem kom alfarið frá honum, frábær frammistaða hjá Geira í dag)
Nú tekur við smá HM pása og kannski bara fínt að liðið fái smá tíma til að átta sig enda er byrjunin á tímabilinu ekki það sem menn ætluðu sér. Deildin er þó enn frekar jöfn og opin og engin heimsendir þó stigasöfnunin sé rýrari en vonast var til.