Frábær sigur Þórs/KA dugði ekki til

Fótbolti
Frábær sigur Þórs/KA dugði ekki til
Frábær sigur á Val í dag (mynd: Þórir Tryggva)

Þór/KA tók á móti Val í toppslag í Pepsi deild kvenna í dag, fyrir leikinn áttu stelpurnar enn smá von um Íslandsmeistaratitilinn en til að halda þeim vonum á lífi þurftu stelpurnar að vinna Val og treysta á að Breiðablik myndi misstíga sig gegn Selfoss.

Þór/KA 4 - 1 Valur
1-0 Sandra Mayor ('17)
2-0 Sandra María Jessen ('50)
2-1 Guðrún Karítas Sigurðardóttir ('52)
3-1 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('78)
4-1 Sandra Mayor ('80)

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað og lá í loftinu að það kæmi líklega mark snemma í leiknum. Það gerðist því Sandra Mayor skoraði geggjað mark á 17. mínútu þegar hún afgreiddi fyrirgjöf frá Huldu Ósk Jónsdóttur snyrtilega í netið. Stuttu síðar bárust fregnir að Selfoss væri komið yfir gegn Breiðablik og útlitið því bjart.

Gestirnir komu sterkari inn í leikinn eftir markið og pressuðu okkar lið betur. Fyrir vikið töpuðu stelpurnar boltanum alltof oft á sínum vallarhelming en sem betur fer tókst Valsliðinu ekki að refsa og staðan því 1-0 er flautað var til hálfleiks.

Sandra María Jessen fyrirliði var svo fljót að tvöfalda forystuna í síðari hálfleik þegar hún skallaði boltann laglega í netið eftir sendingu frá nöfnu sinni Mayor.

Næstu mínútur voru hinsvegar afdrifaríkar, Guðrún Karítas Sigurðardóttir minnkaði muninn strax fyrir Val þegar hún skoraði eftir mistök í vörn Þórs/KA. Á sama tíma skoraði Breiðablik tvívegis gegn Selfoss og var því komið í lykilstöðu í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn.

Áfram var fjör í leiknum og fínasta skemmtun. Arna Sif Ásgrímsdóttir kom inná sem varamaður er rúmlega kortér lifði leiks en Arna hefur verið að glíma við meiðsli að undanförnu og misst af síðustu leikjum. Arna var greinilega í góðum gír því hún skoraði með góðri kollspyrnu stuttu seinna eftir sendingu frá Önnu Rakel Pétursdóttur.

Borgarstjórinn ákvað svo að innsigla sigurinn með svakalegu marki þar sem hún tætti vörn gestanna í sig og renndi boltanum á endanum í netið. Lokatölur 4-1 og frábær sigur staðreynd á mjög sterku liði Vals. Hinsvegar skyggði það á gleðina að Breiðablik gerði sitt með 3-1 sigri á Selfoss og tryggði sér þar með Íslandsmeistaratitilinn.

Það verður að hrósa okkar liði fyrir spilamennskuna í dag og fyrir að gera sitt, fyrir fram var vitað að staðan væri ansi erfið en það hefði verið hrikalega svekkjandi ef Breiðablik hefði misstigið sig og stelpurnar mætt í leik dagsins með hangandi haus. Sigurinn frábær og nú er bara að klára Stjörnuna í lokaumferðinni en það er ljóst að Þór/KA endar í 2. sæti þetta sumarið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is