Flýtilyklar
Breiðablik lagði Þór/KA í toppslagnum
Það var sannkallaður úrslitaleikur á Kópavogsvelli í dag þegar Breiðablik tók á móti Þór/KA í uppgjöri toppliðanna í Pepsi deild kvenna. Fyrir leikinn var Breiðablik í góðri stöðu með tveggja stiga forskot á okkar lið.
Breiðablik 3 - 0 Þór/KA
1-0 Alexandra Jóhannsdóttir ('33)
2-0 Alexandra Jóhannsdóttir ('88)
3-0 Agla María Albertsdóttir ('95)
Þór/KA tók stjórnina í leiknum frá fyrstu mínútu og sást greinilega að stelpurnar ætluðu sér sigurinn sem þær þurftu nauðsynlega á að halda. Heimastúlkur hinsvegar einbeittu sér að því að verjast og reyndu langar sendingar fram sem sköpuðu litla hættu.
Það hefði verið gaman að sjá tölfræði yfir hve mikið liðin voru með boltann því okkar lið var miklu meira í sókn og reyndu hvað þær gátu að opna þétta vörn Blika. Það var því ansi mikið áfall þegar Breiðablik gerði fyrsta mark leiksins á 33. mínútu þegar Ásta Eir Árnadóttir skallaði boltann yfir Stephanie Bukovec í markinu.
Leikurinn opnaðist í kjölfarið enda Breiðablik komið í kjörstöðu og okkar lið með bakið upp við vegg. Ekki urðu mörkin fleiri í fyrri hálfleik og staðan því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks.
Síðari hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri, Breiðablik lagði alla áherslu á að loka á sóknaraðgerðir okkar liðs og lá mark Þórs/KA í loftinu að manni fannst.
Á 65. mínútu gerði Hulda Ósk Jónsdóttir gríðarlega vel þegar hún kom sér inn í teiginn og í kjölfarið fór boltinn beint í hendina á Guðrúnu Arnardóttur og klár vítaspyrna. Hinsvegar var dómari leiksins á öðru máli og eðlilega varð allt vitlaust á vellinum. Andri Hjörvar Albertsson aðstoðarþjálfari fékk rautt spjald fyrir mótmæli og skyldi í raun engan undra reiði hans og annarra liðsmanna Þórs/KA.
Áfram héldu okkar stelpur að leita að jöfnunarmarkinu en það kom því miður ekki þrátt fyrir ágætar tilraunir. Sóknarþunginn var eðlilega mikill og á 88. mínútu tókst Breiðablik að refsa og gera útum leikinn með öðru marki hjá Alexöndru.
Sigurinn því klár hjá Kópavogsliðinu og eðlilega pirringur í okkar liði sem hafði stjórnað leiknum og verið betri aðilinn. Bianca Elissa uppskar rautt spjald skömmu síðar eftir pirringsbrot þegar hún kastaði boltanum í Ástu Eir og hausinn alveg farinn.
Agla María Albertsdóttir nuddaði svo salti í sárin þegar hún bætti við þriðja markinu á lokasekúndum uppbótartímans og 3-0 sigur Breiðablik staðreynd sem gefur nákvæmlega enga mynd af leiknum.
Gríðarlega svekkjandi niðurstaða og nú þegar aðeins 6 stig eru eftir í pottinum er Breiðablik með 5 stiga forskot á toppnum og því í lykilstöðu að landa Íslandsmeistaratitlinum. Alls ekki það sem okkar stelpur ætluðu sér í dag en engu að síður var margt jákvætt, því miður féll lítið með okkar liði. Vítaspyrnan sem liðið fékk ekki í stöðunni 1-0 hefði getað breytt leiknum algjörlega.