Bikardraumurinn úti eftir tap gegn FH

Fótbolti
Bikardraumurinn úti eftir tap gegn FH
FH vörnin lokaði á okkar menn í dag (mynd: Þ.Tr.)

KA átti erfitt verkefni í kvöld þegar liðið sótti FH-inga heim í Kaplakrika í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. Ekki nóg með að FH liðið sé ógnarsterkt að þá voru skörð höggvin í leikmannahóp KA en Guðmann Þórisson, Hallgrímur Jónasson, Callum Williams og Elfar Árni Aðalsteinsson voru allir frá.

FH 1 - 0 KA
1-0 Halldór Orri Björnsson ('19)

Srdjan Tufegdzic þjálfari KA þurfti því að gera nokkrar breytingar á hópi liðsins og spiluðu þeir Milan Joksimovic, Steinþór Freyr Þorsteinsson og Ólafur Aron Pétursson sína fyrstu leiki í byrjunarliðinu í sumar. Bekkurinn var mjög ungur fyrir vikið og var meðalaldurinn einungis 19,3 ár, en Cristian Martinez sneri hinsvegar aftur í mark KA manna.

KA liðið hóf leikinn á því að pressa heimamenn frekar hátt uppi og lofaði byrjunin góðu. KA var meira með boltann en átti eins og í síðustu leikjum í erfiðleikum með að skapa sér alvöru færi. Það var því frekar súrt þegar Halldór Orri Björnsson kom FH í 1-0 á 19. mínútu.

Í kjölfarið spiluðu FH-ingar varfærnislega og virtust ætla að hafa eins lítið fyrir sigrinum og hægt væri. KA liðið var meira með boltann en það var eins og það vantaði örlitla greddu þegar menn komust upp við teiginn og því vantaði meiri ógn af okkar sóknarleik.

Besta færi KA í fyrri hálfleik kom er um 10 mínútur voru eftir af hálfleiknum en þá gerði Ásgeir Sigurgeirsson vel í því að koma sér að teignum, renndi honum svo inn á Steinþór Frey sem skaut að marki en skotið fór í varnarmann og útaf.

Síðari hálfleikur var í raun alveg eins og sá fyrri, FH lagði lítið undir enda forystan þeirra og KA hélt áfram að reyna fyrir sér án þess að ógna nægilega. Þeir Frosti Brynjólfsson og Sæþór Olgeirsson komu inn á er leið á síðari hálfleikinn en áfram var varnarmúr FH sterkur.

Þegar upp var staðið urðu mörkin ekki fleiri en þó að KA hafi verið meira með boltann og reynt ýmislegt þá áttu heimamenn betri tækifæri á að bæta við í síðari hálfleik.

KA er því dottið útúr Mjólkurbikarnum og framundan því áframhaldandi barátta í Pepsi deildinni. KA á heimaleik gegn Víkingum á sunnudaginn og er ljóst að sá leikur er gríðarlega mikilvægur upp á framhaldið. Nú bíðum við bara og sjáum hvernig það gengur með að fá eitthvað af okkar lykilmönnum til baka úr meiðslum en þó er mjög jákvætt að Milan Joksimovic hafi spilað heilan leik í dag og staðið sig með prýði.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  staff@ka.is