Úrslitakeppnin hefst á morgun!

Handbolti
Úrslitakeppnin hefst á morgun!
Strákarnir eru klárir! (mynd: Þórir Tryggva)

KA hefur leik í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn á morgun er strákarnir sækja Hauka heim klukkan 19:30. Þetta er annað árið í röð sem KA leikur í úrslitakeppninni og alveg klárt að strákarnir ætla sér áfram í undanúrslit keppninnar.

Vinna þarf tvo leiki til að tryggja sér sæti í undanúrslitunum en eins og fyrr segir mætast liðin að Ásvöllum í Hafnarfirði kl. 19:30 á morgun og svo aftur í KA-Heimilinu á mánudaginn klukkan 18:30. Ef liðin vinna sitthvorn leikinn verður hreinn oddaleikur leikinn að Ásvöllum miðvikudaginn 27. apríl.

Liðin hafa mæst þrívegis í vetur og hafa allir leikirnir verið gríðarlega spennandi og skemmtilegir. Haukar unnu báða deildarleiki liðanna en KA vann frækinn sigur í KA-Heimilinu í bikarnum sem tryggði strákunum sæti í úrslitahelginni þar sem KA lék loks til úrslita.

Það er alveg klárt að við þurfum að gera allt hvað við getum til að tryggja KA sæti í undanúrslitunum. Haukar eru með gífurlega sterkt lið og við þurfum að hefja einvígið strax af krafti á morgun. Við hvetjum því ALLA sem geta til að mæta á Ásvelli annaðkvöld og styðja okkar magnaða lið til sigurs!

KA og Haukar hafa í gegnum árin barist hart í úrslitakeppninni en í bæði skiptin sem KA hefur hampað Íslandsmeistaratitlinum hefur liðið slegið Hauka úr leik.

KA varð Íslandsmeistari í fyrsta skiptið árið 1997 en þar sló liðið út Hauka eftir ævintýralegt undanúrslitaeinvígi þar sem KA fór með eins marks sigur í oddaleik í Hafnarfirði.


Oddaleikur KA og Hauka árið 1997 var ævintýralegur

Liðin mættust í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn árið 2001 þar sem Haukar hömpuðu titlinum eftir hreinan oddaleik í KA-Heimilinu. KA hefndi hinsvegar fyrir tapið ári síðar með því að slá Hauka út í undanúrslitunum með tveimur eftirminnilegum sigrum.

Fyrst mættust liðin á Ásvöllum en Haukar höfðu ekki tapað leik á Ásvöllum í rúmt ár og voru handhafar allra titla á þessum tíma. Ekki leit út fyrir að það myndi breytast því Haukar leiddu 16-8 í hálfleik. KA liðið kom hinsvegar með stórkostlega endurkomu, jafnaði metin og á endanum þurfti að framlengja leikinn og þar hafði KA að lokum betur 32-34.


Ótrúlegur endurkomusigur KA á Ásvöllum 2002

Strákunum tókst svo að slá Hauka út í öðrum leik liðanna í KA-Heimilinu með 27-26 sigri eftir háspennuleik. Í kjölfarið lagði KA lið Vals í úrslitaeinvíginu og hampaði því sínum öðrum Íslandsmeistaratitli í sögunni.


Sigur í KA-Heimilinu tryggði KA 2-0 sigur í einvíginu á Haukum


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is