Myndaveislur frá leik KA/Þórs og Vals

Handbolti
Myndaveislur frá leik KA/Þórs og Vals
Stöngin út að þessu sinni (mynd: Egill Bjarni)

KA/Þór tók á móti Val í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta kvenna í KA-Heimilinu á laugardaginn. Valur leiddi einvígið 1-2 fyrir leikinn og þurftu stelpurnar okkar því á sigri að halda til að knýja fram oddaleik í viðureigninni.

Þeir Egill Bjarni Friðjónsson og Þórir Tryggvason ljósmyndarar voru á leiknum og bjóða til myndaveislu frá herlegheitunum. Kunnum þeim félögum bestu þakkir fyrir framtakið sem og ykkur fyrir frábæran stuðning í vetur.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Öfugt við aðra leiki í einvíginu voru það Valskonur sem hófu leikinn betur og komust þær í 0-4 áður en stelpunum okkar tókst að koma sér á blað. Gestirnir höfðu 4-6 marka forystu nær allan fyrri hálfleikinn en eins og við þekkjum svo vel gefst okkar lið aldrei upp og flottur kafli undir lok hálfleiksins minnkaði muninn niður í 13-15 en Valur náði marki fyrir hlé og hálfleikstölur því 13-16.

Aftur byrjuðu gestirnir betur í þeim síðari en með flottum karakter komu stelpurnar sér enn og aftur inn í leikinn. Á endanum vantaði herslumuninn til að brúa bilið og að lokum vann Valur 28-30 sigur og kláraði þar með einvígið 1-3 og fer því áfram í lokaúrslitin.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggva frá leiknum

Tímabilinu er þar með lokið hjá stelpunum okkar en þær geta engu að síður verið ansi sáttar með tímabilið. Það er gríðarlega erfitt að fylgja á eftir tímabili eins og þær náðu á því síðasta auk þess að Bikarmeistaratitillinn sem vannst í haust er í raun á þessu tímabili þó tæknilega séð sé hann hluti af fyrra tímabili.

Næstbesti árangur KA/Þórs í sögunni er því niðurstaðan að þessu sinni og alveg ljóst að okkar frábæra lið mun eflast enn á því næsta. Þá má ekki gleyma því að Evrópuævintýri liðsins tók þó nokkurn toll en engu að síður var það frábær reynsla og gaman að stelpurnar og stjórn liðsins hafi tekið þá skemmtilegu ákvörðun að láta vaða gegn sumum af bestu liðum Evrópu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is