Frábær sigur KA/Þórs (myndaveisla)

Handbolti
Frábær sigur KA/Þórs (myndaveisla)
Mögnuð frammistaða í gær! (mynd: Egill Bjarni)

KA/Þór vann frábæran og sanngjarnan 26-23 sigur á Val í KA-Heimilinu í gær og jafnaði þar með metin í 1-1 í undanúrslitaeinvígi liðanna í baráttunni um Íslandsmeistaratitilinn. Stelpurnar náðu snemma frumkvæðinu og spiluðu lengst af stórkostlegan handbolta.

Það myndaðist mögnuð stemning í KA-Heimilinu sem án nokkurs vafa hjálpaði við að landa sigrinum góða. Þó nokkuð fyrir leik var komið virkilega skemmtilegt andrúmsloft í húsið þar sem Goði bauð upp á fríar pylsur og oddvitar flokkanna í sveitarstjórnarkosningunum afgreiddu gesti.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

Leikurinn fór jafnt af stað en um miðbik fyrri hálfleiks kom magnaður kafli hjá stelpunum okkar þar sem þær hreinlega keyrðu yfir gestina og þær leiddu 15-9 í hléinu. Þær héldu svo uppteknum hætti í upphafi síðari hálfleiks og náðu mest níu marka forystu í stöðunni 18-9.

Þá breytti Valur um leikplan, fór að spila með aukamann í sókninni auk þess sem að það hægðist töluvert á sóknarleik okkar liðs. Í bland við þetta fóru áhorfendur og leikmenn að pirra sig á sumum furðulegum dómum sem féllu þó á báða vegu. Það var því komin töluvert stress í okkar fólk þegar staðan var orðin 21-19 og enn tíu mínútur til leiksloka.

En stelpurnar okkar hafa sýnt aftur og aftur að þær gefast aldrei upp og þeim tókst að ná áttum á ný og nær komst Valsliðið ekki. Að lokum vannst 26-23 sigur sem verður að teljast ansi sanngjarn og hefði hæglega getað orðið stærri, það skiptir þó ekki máli og er staðan því jöfn í einvíginu 1-1.

Það var hrein unun að fylgjast með liðinu okkar bæði varnar- og sóknarlega í 40 mínútur og ljóst að ef okkur tekst að spila af þessum krafti í heilan leik er ekkert lið sem getur ráðið við liðið.

Aldís Ásta Heimisdóttir og Martha Hermannsdóttir voru markahæstar með 6 mörk auk þess að spila eins og alltaf lykilhlutverk í varnarleik liðsins. Unnur Ómarsdóttir, Rut Jónsdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir gerðu allar 3 mörk, Hulda Bryndís Tryggvadóttir gerði 2 mörk og þær Anna Mary Jónsdóttir, Anna Þyrí Halldórsdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir gerðu allar eitt mark hver.

Sunna Guðrún Pétursdóttir stóð í markinu og átti mjög flottan leik, varði 11 skot og endaði með um 33% vörslu en hún varði til að mynda eitt vítakast.

Liðin mætast næst á Hlíðarenda á fimmtudaginn en vinna þarf þrjá leiki til að komast áfram í úrslitaeinvígið og því ljóst að liðin mætast í KA-Heimilinu á laugardaginn í fjórða leiknum. Eftir þann leik kemur svo í ljós hvort það þurfi hreinan oddaleik til að skera úr um einvígið.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is