Rut og Arna í þjálfarateymi KA/Þórs

Handbolti

Rut Arnfjörð Jónsdóttir og Arna Valgerður Erlingsdóttir koma inn í þjálfarateymi KA/Þórs og verða aðstoðarþjálfarar Andra Snæs Stefánssonar í vetur. KA/Þór er að fara inn í sitt þriðja tímabil undir stjórn Andra og afar spennandi að fá þær Rut og Örnu inn í þjálfarateymið.

Rut er eins og flestir ættu að vita einhver allra besta handboltakona landsins og var meðal annars valin handknattleikskona ársins fyrir árið 2021. Auk þess að vera frábær leikmaður er Rut mikill handboltaheili og mun innkoma hennar inn í þjálfarateymið án nokkurs vafa lyfta starfi meistaraflokks upp á hærra plan.

Arna Valgerður er öllum hnútum kunnug hjá okkur og hefur frá unga aldri þjálfað yngriflokka KA/Þórs auk þess að leika með liðinu. Arna hefur því heldur betur unnið fyrir þessu tækifæri og er auk þess gríðarlega öflugur félagsmaður.

Báðar verða þær spilandi aðstoðarþjálfarar og njótum við því áfram krafta þeirra innan vallar og verður afar gaman að fylgjast með okkar frábæra liði í vetur. Það er okkar von að innkoma þeirra muni lyfta starfi KA/Þórs upp á hærra plan og bæta umgjörðina um liðið enn frekar.

Fyrsti leikur stelpnanna í vetur er útileikur gegn ÍBV laugardaginn 17. september en leikmannakynning KA og KA/Þórs fer fram í golfskálanum á Jaðarsvelli á morgun, laugardaginn 10. september, en auk kynningarinnar verður þrælskemmtilegt PubQuiz og hvetjum við alla sem hafa áhuga til að mæta. Dagskráin hefst kl. 18:45.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is