Fyrstu heimaleikir KA/Þórs í Evrópu um helgina!

Handbolti
Fyrstu heimaleikir KA/Þórs í Evrópu um helgina!
Sögulegir leikir framundan hjá stelpunum!

Stelpurnar okkar í KA/Þór halda áfram að skrifa söguna upp á nýtt þegar þær leika sína fyrstu heimaleiki í Evrópukeppni á föstudag og laugardag gegn Makedónska liðinu HC Gjorche Petrov.

KA/Þór hefur skrifað handboltasöguna upp á nýtt undanfarin ár og tók í fyrsta skipti þátt í Evrópukeppni á síðustu leiktíð. Stelpurnar slógu þá út meistarana frá Kósóvó áður en þær þurftu að sætta sig við tap gegn spænska stórliðinu CB Elche en allir fjórir leikir KA/Þórs voru leiknir á útivelli.

Það er því loksins komið að því að við fáum Evrópuleik hjá stelpunum í KA-Heimilið og gott betur því báðir leikir fara fram hér heima. Liðin mætast á föstudag klukkan 19:30 og svo aftur á laugardeginum á sama tíma. Samanlagður árangur úr leikjunum tveimur ræður því hvort liðið fer áfram í næstu umferð.

Við hvetjum ykkur eindregið til að fjölmenna á báða leiki og tryggja stelpunum sæti í næstu umferð enda eiga þær það algjörlega skilið. Fullorðinsmiði á báða leiki kostar 5.000 krónur en stakur miði er á 3.000 kr.

16 ára og yngri fá staka miðann á 500 krónur og þá er frítt inn fyrir 6 ára og yngri. Hlökkum til að sjá ykkur, áfram KA/Þór!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  |  ka@ka-sport.is