Flýtilyklar
Margrét Árnadóttir til liðs við Parma
Margrét Árnadóttir hefur skrifað undir samning við ítalska félagið Parma Calcio 1913 en liðið leikur í efstu deild á Ítalíu. Samningurinn er til að byrja með til sex mánaða og gildir út núverandi leiktíð en í samningnum er möguleiki á eins árs framlengingu.
Þetta er gríðarlega spennandi skref hjá Margréti sem er 23 ára gömul en hún hefur verið algjör lykilmaður í Þór/KA undanfarin ár og var meðal annars kjörin besti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð. Margrét sem kom uppúr yngriflokkastarfi KA fór snemma að leika með meistaraflokk Þórs/KA, aðeins 16 ára gömul. Hún hefur nú leikið 101 leik í deild og bikar fyrir Þór/KA auk fjögurra leikja í Evrópukeppni.
Það verður virkilega gaman að fylgjast með framgöngu Margrétar með liði Parma og óskum við henni bæði til hamingju með samninginn og góðs gengis á nýjum slóðum.