Þrjú lið KA í bikarúrslit yngriflokka

Blak
Þrjú lið KA í bikarúrslit yngriflokka
Lið KA sem leikur til úrslita í U14 flokki kvenna

Bikarkeppni yngriflokka í blaki fór fram á Akureyri um síðustu helgi í umsjón blakdeildar KA. Þetta er eitt stærsta yngriflokkamót í blaki undanfarin ár og getum við verið afar stolt af því hve vel mótið gekk fyrir sig en lið hvaðan æva af landinu léku listir sínar.

Ekki nóg með það að þá tryggðu þrjú lið frá KA sér sæti í bikarúrslitunum en þeir leikir fara fram sunnudaginn 12. mars næstkomandi í Digranesi en þetta er sama helgi og úrslitaleikir karla og kvenna fara fram og verður það mikil upplifun fyrir okkar ungu iðkendur að taka þátt í sömu helgi.

Keppt var í sex flokkum um helgina, í U14, U16 og U20 karla og kvenna en U20 flokkarnir kláruðu sínar keppnir um helgina og leika því ekki til úrslita í Digranesi. KA tefldi ekki fram liði í drengjaflokki U14 og kom því liði í úrslit í öllum þremur flokkum þar sem það var möguleiki, geri aðrir betur!


Lið KA B í U14 flokki kvenna

Stelpurnar í U14 gerðu sér lítið fyrir og unnu alla sína leiki um helgina. Þar á meðal unnu stelpurnar 2-1 sigur á liði Þróttar Nes í hálfgerðum úrslitaleik en liðin mætast svo í bikarúrslitaleiknum í Digranesi. KA tefldi fram tveimur liðum í U14 flokknum og endaði KA B í 5. sæti eftir flotta frammistöðu.


Lið KA sem keppir til úrslita í U16 flokki kvenna

Í U16 flokki kvenna vann KA alla sína leiki og tapaði einungis einni hrinu. Stelpurnar því alla sína leiki 2-0 fyrir utan 2-1 sigur á Þrótti Nes og verður afar spennandi að fylgjast með úrslitaleik liðanna. KA tefldi fram þremur liðum í aldursflokknum, KA B endaði í 6. sæti og KA C í 8. sæti sem er ansi hreint flottur árangur og sýnir vel hve mikil breidd er komin upp í okkar flotta starfi.


Lið KA sem leikur til úrslita í U16 flokki karla

Strákarnir í U16 liði KA-Völsungs enduðu í 2. sæti í sinni keppni og leika því til úrslita í Digranesi. Strákarnir töpuðu aðeins einum leik og það í oddahrinu gegn Þrótti Nes sem endaði í efsta sæti. Það verða því þrír spennandi úrslitaleikir hjá okkar liðum gegn Þrótti Nes í Digranesi og allt leikir milli liða sem mættust í oddahrinu.


Lið KA sem fékk brons í U20 flokki karla

Bæði karla- og kvennalið KA í U20 aldursflokknum komust í undanúrslit í sinni keppni en féllu þar úr leik. Strákarnir enduðu að lokum í 3. sæti og stelpurnar í 4. sæti. Í báðum flokkum tefldi KA fram tveimur liðum og enduðu B-liðin bæði í 8. sæti í sínum keppnum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is