Spennusigur KA/Þórs á Ásvöllum

Handbolti
Spennusigur KA/Þórs á Ásvöllum
Tvö risastig í hús! (mynd: Egill Bjarni)

Baráttan í Olísdeild kvenna fór aftur af stað í dag er KA/Þór sótti Hauka heim í 4. umferð deildarinnar. Aðeins einu stigi munaði á liðunum fyrir leik og miðað við undanfarna leiki liðanna mátti búast við hörkuleik enda ljóst að gríðarleg barátta verður um efstu fjögur sæti deildarinnar sem gefa sæti í úrslitakeppninni.

Það er langt síðan síðasti leikur stelpnanna fór fram og það fór ekki framhjá neinum í upphafi leiks. Það tók liðið sjö mínútur að komast á blað og eftir rétt rúmar tíu mínútur leiddu Haukar 5-2. En þá hrökk liðið í gang, vörnin hrökk í gang og Matea varði eins og berserkur í markinu. Sóknarleikurinn varð betri og betri með Rut í fararbroddi.

Næstu fjögur mörk leiksins voru okkar og stelpurnar komust því yfir í 5-6 og litu aldrei til baka. Staðan var 10-13 fyrir KA/Þór er flautað var til hálfleiks. 

Áfram bættu stelpurnar við forskotið í upphafi síðari hálfleiks og um miðbik síðari hálfleiks var staðan orðin 12-19 og útlitið heldur betur gott. En þá brugðu Haukastúlkur á það ráð að skyggja á Rut og þá kom hökt á sóknarleikinn. Í kjölfarið fengu Haukar hraðaupphlaup og gerðu næstu fjögur mörk leiksins og spennan í algleymingi.

Er rétt rúm mínúta lifði leiks minnkuðu Haukar muninn niður í 19-20 og fór þá heldur betur um mann. En stelpurnar eru með stáltaugar og eftir leikhlé braust Aldís Ásta í gegn og skoraði gríðarlega mikilvægt mark sem tryggði sigurinn. Haukar löguðu stöðuna úr vítakasti en nær komust þær ekki og 20-21 sigur staðreynd!

Matea Lonac átti stórleik í markinu og varði hvert skotið á fætur öðru, hún endaði með 18 varin skot sem gera 47,4% vörslu. Þá var Rut Jónsdóttir frábær, skoraði 9 mörk og átti ófáar stoðsendingar. Aldís Ásta Heimisdóttir gerði 4 mörk, Katrín Vilhjálmsdóttir 3, Hulda Bryndís Tryggvadóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir gerðu 2 mörk hvor og Ásdís Guðmundsdóttir gerði 1 mark.

Martha Hermannsdóttir fyrirliði er meidd og verður ekki meira með í vetur sem er stórt skarð að fylla. Þá gat Sólveig Lára Kristjánsdóttir ekki leikið með í dag vegna vinnu sinnar og því virkilega sterkt hjá stelpunum að sækja sigur á Ásvelli en það er ljóst að við þurfum að finna lausnir á því þegar Rut er klippt út í sókninni.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is