Myndaveisla frá lokaleik KA/Þórs fyrir jól

Handbolti
Myndaveisla frá lokaleik KA/Þórs fyrir jól
Síðari hálfleikur var slakur (mynd: Þórir Tryggva)

KA/Þór tók á móti Haukum í síðustu umferð Olís deildar kvenna fyrir jólafrí. Það má með sanni segja að þetta hafi verið fjögurra stiga leikur en fyrir leikinn voru stelpurnar í 4.-5. sæti deildarinnar með 10 stig en Haukar voru sæti neðar með 7 stig og því ansi mikið undir fyrir bæði lið.

Byrjunin á leiknum bar þess merki að mikið var undir og gekk liðunum erfiðlega að skora. KA/Þór var þó fyrr að ná áttum og leiddi leikinn þó gestirnir hafi aldrei verið langt undan. Þegar líða fór á leikinn fór Saga Sif í marki Hauka að verja eins og berserkur en á sama tíma var lítil varsla hjá okkar liði.

Haukarnir nýttu sér þetta og náðu forystunni fyrir hlé og leiddu 13-14 er liðin gengu til búningsherbergja. Það var ljóst að stelpurnar þyrftu að ná að finna svör við leik gestanna en það gekk því miður ekki og byrjunin á síðari hálfleik fór með leikinn.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá leiknum

Stelpurnar skoruðu aðeins eitt mark á fyrstu 17 mínútum síðari hálfleiksins en á sama tíma gerðu Haukarnir átta mörk og gerðu útum leikinn. Varnarleikur Hauka var gríðarlega öflugur og Saga markvörður þeirra átti stórleik og endaði með 18 varin skot. Einkenni KA/Þórs undanfarin ár hefur verið að liðið gefur allt í leiki sína og gefst aldrei upp en það var erfitt að horfa upp á síðari hálfleikinn og virtist sem að stelpurnar hafi misst trúna á verkefnið.

Það var sérstaklega fúlt að sjá hve illa stelpurnar nýttu sér að vera manni fleiri í leiknum og klárt að liðið þarf að fara betur yfir þá stöðu þegar hún kemur upp. Hinsvegar verður að hrósa liðinu fyrir það hvernig stelpurnar spiluðu sjö á sex en liðið sýndi góðan aga og gaf gestunum ekki færi á að stela boltanum og skora yfir allan völlinn.

Með því að spila með aukamann í sókninni tókst liðinu að búa til smá spennu og minnka muninn niður í fjögur mörk en nær komust stelpurnar ekki og lokatölur voru 21-27 sigur Hauka. Katrín Vilhjálmsdóttir sem hafði átt virkilega góðan leik varð fyrir höfuðhöggi í fyrri hálfleik og gat því ekki tekið meiri þátt í leiknum og munaði klárlega um fjarveru hennar í kjölfarið.

Haukaliðið er nú aðeins einu stigi frá KA/Þór eftir leikinn en í sömu umferð vann ÍBV sigur á HK og er því svakaleg barátta framundan um 4. sætið í deildinni sem gefur þátttökurétt í úrslitakeppninni. KA/Þór og HK eru með 10 stig, Haukar 9 og ÍBV með 7 stig þegar 10 umferðir eru eftir af deildinni.

Katrín Vilhjálmsdóttir var markahæst í liði KA/Þórs með 5 mörk, Martha Hermannsdóttir gerði 4, Martina Corkovic 4, Rakel Sara Elvarsdóttir 3, Aldís Ásta Heimisdóttir 2, Anna Þyrí Halldórsdóttir 1, Ásdís Sigurðardóttir 1 og Ásdís Guðmundsdóttir 1 mark. Matea Lonac varði 5 skot í markinu og Selma Sigurðardóttir varði 3 skot.

Nú er bara um að gera að nýta jólafríið vel til að hlaða batteríin og undirbúa sig fyrir síðari hluta deildarinnar. Liðið þarf að skoða vel hvað fór úrskeiðis í leiknum og koma í veg fyrir að þetta endurtaki sig. Uppskeran í vetur til þessa er þó mjög góð og draumurinn um sæti í úrslitakeppninni lifir góðu lífi sem er vel!


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is