Myndaveisla frá leik KA og Aftureldingar

Handbolti
Myndaveisla frá leik KA og Aftureldingar
Svekkjandi tap í gær (mynd: Egill Bjarni)

KA tók á móti Aftureldingu í Olísdeild karla í gærkvöldi en þetta var fyrsti leikur liðanna frá byrjun október. Það fór ekki framhjá neinum að spilformið er ekki alveg á sínum stað og tók það liðin smá tíma að finna taktinn. Egill Bjarni Friðjónsson ljósmyndari var á leiknum og býður til myndaveislu.

KA liðið spilaði frábæra vörn og voru gestirnir í vandræðum með sóknarleikinn sinn, það sama má að vísu segja um okkar sóknarleik en engu að síður var það okkar lið sem leiddi allan fyrri hálfleikinn. Jafnt var á nánast öllum tölum en góður kafli undir lok fyrri hálfleiks kom KA í 13-10 og átti liðið góðan möguleika á að ná fjögurra marka forystu fyrir hlé en það gekk ekki og þess í stað tókst Mosfellingum að refsa með marki og hálfleikstölur því 13-11.


Smelltu á myndina til að skoða myndir Egils Bjarna frá leiknum

En strákarnir virtust vera komnir í gang og þeir héldu áfram að stýra leiknum í upphafi síðari hálfleiks. Forskotið jókst jafnt og þétt og skyndilega var staðan orðin 17-12 og útlitið ansi gott. Er tæpt kortér lifði leiks var staðan 19-15 og fékk þá Þrándur Gíslason varnartröll gestanna rautt spjald en þá snerist leikurinn gjörsamlega í höndunum á okkur.

Afturelding gerði næstu sjö mörk leiksins og komst í 19-22 stöðu. Algjört hrun varð á leik okkar liðs og glataði liðið boltanum trekk í trekk. Þegar þrjár mínútur voru eftir var enn þriggja marka munur, 21-24, og þá kviknaði aftur líf í strákunum. Þeim tókst að minnka muninn í eitt mark en nær komust þeir ekki og gríðarlega svekkjandi 24-25 tap staðreynd.

Árni Bragi Eyjólfsson átti stórleik gegn sínum gömlu félögum og gerði alls 10 mörk en það er ljóst að það þurfa fleiri að stíga upp sóknarlega til að klára næstu leiki. Áki Egilsnes, Daði Jónsson og Jóhann Geir Sævarsson gerðu allir þrjú mörk, Ólafur Gústafsson gerði 2 mörk og þeir Einar Birgir Stefánsson, Ragnar Snædahl Njálsson og Patrekur Stefánsson gerðu sitt markið hver. Í markinu varði Nicholas Satchwell 10 skot.

Næsti leikur liðsins er útileikur gegn FH á miðvikudaginn og verður spennandi að sjá hvort Jonni og strákarnir finni lausnir á sóknarvandræðunum. Hinsvegar verður að hrósa varnarleik liðsins og tapið alls enginn heimsendir enda nóg eftir af vetrinum.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is