KA/Þór steinlá í Vestmannaeyjum

Handbolti
KA/Þór steinlá í Vestmannaeyjum
ÍBV hafði svör við okkar liði (mynd Þórir Tryggva)

Það var heldur betur mikið undir í Vestmannaeyjum í dag þegar KA/Þór sótti ÍBV heim í 13. umferð Olís deildar kvenna í handboltanum. Fyrir leikinn var KA/Þór í 6. sæti með 10 stig og þurfti sigur til að jafna HK og Hauka í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Eyjakonur voru hinsvegar sæti neðar með 8 stig og þurftu því sigur til að blanda sér inn í úrslitakeppnisbaráttuna.

Leikurinn fór jafnt af stað og virtist sem að það væri smá titringur í liðunum sem var kannski eðlilegt enda um fjögurra stiga leik að ræða. Staðan var 4-3 fyrir heimakonum um miðbik fyrri hálfleiksins en þá kom hræðilegur kafli hjá okkar liði á sama tíma og ÍBV fann heldur betur taktinn.

ÍBV gerði átta mörk gegn aðeins tveimur og leiddi því 12-5 þegar flautað var til hálfleiks. Staðan mikil vonbrigði enda hafa stelpurnar sýnt það í vetur að þær eiga vel heima í efri hluta deildarinnar og unnu meðal annars góðan 20-18 sigur í fyrri leik liðanna í KA-Heimilinu.

Eyjakonur komust fljótlega í tíu marka forystu í síðari hálfleiknum og það var aldrei spurning eftir það hvoru megin sigurinn myndi enda. Stelpurnar náðu mest að minnka muninn niður í sex mörk en að lokum fór ÍBV með 26-15 sigur sem verður að segjast var ansi sanngjarn.

Með sigrinum er ÍBV búið að jafna stelpurnar að stigum og sitja liðin því í 6.-7. sætinu. Vissulega mjög svekkjandi að leikurinn skyldi tapast og það svona stórt en baráttan um sæti í úrslitakeppninni er enn galopin og aðeins tvö stig upp í 4. sætið þannig að nú er um að gera að fara vel yfir leikinn og mæta klárar næstu helgi þegar botnlið Aftureldingar kemur í heimsókn.

Anna Þyrí Halldórsdóttir og Rakel Sara Elvarsdóttir voru markahæstar í dag með 3 mörk hvor, Martina Corkovic 2, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Telma Lísa Elmarsdóttir 1, Svala Björk Svavarsdóttir 1, Ásdís Sigurðardóttir 1, Katrín Vilhjálmsdóttir 1 og Martha Hermannsdóttir 1 mark. Matea Lonac varði 11 skot í markinu.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is