Flýtilyklar
Flottur árangur á fyrsta móti vetrarins
Eftir um árshlé vegna Covid veirunnar fengu 5. og 6. flokkur í handboltanum loks að spreyta sig er fyrstu mót ársins fóru fram um helgina. Það var heldur betur eftirvænting og stemning hjá krökkunum okkar að fara suður að keppa og úr varð flott helgi.
KA/Þór var með tvö lið í 5. flokki kvenna en leikið var í Garðabæ. KA/Þór 1 lék í 2. deild og má með sanni segja að stelpurnar hafi sýnt sínar bestu hliðar því þær unnu á endanum sigur í deildinni og komu heim með bikar.
KA/Þór 2 lék í 3. deild og eftir flotta baráttu enduðu stelpurnar okkar í 3. sæti. Flottur árangur hjá stelpunum og skemmtileg helgi að baki.
Strákarnir í KA 1 í 5. flokki unnu afar öruggan sigur í sinni deild
KA var með tvö lið í 5. flokki karla sem lék í Kópavogi. KA er með eitt allra besta liðið á landinu í þessum árgangi en vegna nýrra sóttvarnarreglna var deildarskipting öðruvísi en hefur verið. KA 1 spilaði í 2. deild og vann þar alla leiki sína með 10-13 mörkum og sýndi að þeir eiga augljóslega heima meðal bestu liða landsins. KA 2 töpuðu öllum leikjunum sínum en sýndu góða kafla inn á milli. Verður gaman að fylgjast með næsta móti þegar deildarskipting er orðin eðlileg á ný.
6. flokkur karla eldri tefldu fram tveimur liðum í Fylkishöllinni en góður árangur síðasta veturs gerði það að verkum að KA var með lið í 1. og 2. deild, eina liðið á landinu sem státar af því.
KA 1 lék í efstu deild en liðið var í 2. sæti Íslandsmótsins þegar mótið var blásið af síðasta vetur. Strákarnir byrjuðu brösulega og töpuðu gegn Selfoss, 11-12 í hörkuleik sem var jafn á öllum tölum. Selfoss skoraði mark úr aukakasti eftir að leiktíminn var liðinn. Næsti leikur var gegn FH og stefndi í góðan sigur en slakur kafli í lok leiks varð til þess að jafntefli varð niðurstaðan. Strákarnir hinsvegar stigu upp og sigruðu síðustu tvo leikina og 2. sætið niðurstaðan!
KA 2 keppti í 2.deild og spiluðu strákarnir frábæran handbolta, gerðu tvö jafntefli og töpuðu tveimur leikjum með þriggja marka mun, eftir að hafa leitt í hálfleik í báðum leikjum. Flottur handbolti hjá drengjunum sem tryggðu sæti sitt í deildinni á næsta móti, eina liðið númer 2 í þessari deild, sem er frábær árangur. Það er því ljóst að 2009 árgangurinn hjá KA er gríðarlega efnilegur og með tvö lið í topp 12 á landinu sem er magnað!