Tönnin í nefinu á Jonna í 10 mánuði

Handbolti
Tönnin í nefinu á Jonna í 10 mánuði
Svakaleg bólga var í nefinu á Jonna (mynd: MBL)

Jónatan Magnússon lenti í hörðum árekstri við Þorvarð Tjörva Ólafsson er KA og Haukar mættust í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta árið 2001. Tjörvi skall með andlitið framan á andlit Jonna og féllu þeir báðir við. Það fossblæddi úr Jonna og voru meiðsli hans mjög alvarleg.

Á sama tíma var hlúð að Tjörva og kom strax í ljós að framtönn í honum hafði brotnað. Tönnin fannst ekki, Tjörvi gat haldið leik áfram en Jonni var fluttur á sjúkrahús með ansi ljótan skurð á nefinu. Til að bæta gráu ofan á svart unnu Haukar leikinn og lyftu bikarnum á heimavelli KA.

Jonni var ekki myndaður á sjúkrahúsinu og var skurðinum einfaldlega lokað. Nokkrum dögum síðar fékk hann kúlu á nefið en þá héldu læknarnir að þetta væri bólga sem myndi hjaðna með tímanum. Í kjölfarið var hann sendur til sérfræðings í háls-, nef- og eyrnalækningum sem og til lýtalæknis sem töldu að flísast hefði úr beini í nefinu og því var ákveðið að bíða með aðgerð í heilt ár og sjá hvernig beinið myndi gróa.

Um tíu mánuðum seinna var Jonni enn með bólguna í nefinu og lék af fullum krafti með handboltaliði KA. En í leik gegn Aftureldingu fékk hann högg sem varð til þess að hann fann mikið til í nefinu. Jonni nýtti tækifærið og fékk Brynjólf Jónsson lækni handboltalandsliðsins sem var á svæðinu til að líta á nefið.

Brynjólfur tók hressilega á nefinu og í kjölfarið kom upp sýking svo nefið varð enn ófrýnilegra daginn eftir. Jonni fór því til læknis enn á ný og þá fyrst var tekin röntgenmynd. Þá kom loksins í ljós að tönnin hans Tjörva var föst í nefinu og var að valda öllum þessum vanda. Hún hafði losnað þegar Brynjólfur læknir hafði tekið á nefinu og því kom upp sýkingin.


Jonni enn með tönnina í nefinu hugar að Þorvaldi Þorvaldssyni eftir baráttu þeirra félaga í leik KA og Þórs

Skurðaðgerð var því framundan og fór hún fram 13. mars 2002 og gat Jonni því leikið einn leik í viðbót með tönnina í nefinu en það var nágrannaslagur gegn Þór í KA-Heimilinu kvöldið áður. Eftir mikinn baráttuleik vann KA sanngjarnan 23-19 sigur og gat Jonni því farið sigurreifur í aðgerðina.

"Hefði ég ekki fengið þessa sýkingu, hefði ég bara beðið rólegur eftir aðgerðinni sem fyrirhuguð var í maí og þá hefði hið sanna aldrei komið í ljós" sagði Jónatan áður en hann losnaði loksins við tönnina úr nefinu.


Allt annað að sjá til kappans eftir aðgerðina

Aðgerðin gekk vel og tók aðeins hálfa klukkustund og tönnin hans Tjörva var loksins fjarlægð. Tönnin var loks send til Tjörva í pósti sem var himinlifandi með gjöfina. "Það verður gaman að eiga tönnina sem minjagrip. Jónatan vonandi fríkkar við að losna við tönnina og það er alveg kominn tími til að losa hann við þetta" sagði Þorvarður Tjörvi, sem sagði í samtali við Morgunblaðið jafnframt viss um að eiga eftir að mæta Jonna og félögum einhvern tímann í úrslitakeppninni sem var framundan.

Það átti einmitt eftir að gerast því liðin mættust í undanúrslitum og þar hefndi KA-liðið fyrir tapið í lokaúrslitunum með því að slá út Hauka 2-0 og fagnaði að lokum Íslandsmeistaratitlinum eftir einvígi við Val.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is