Flýtilyklar
Tímabilið blásið af í handboltanum
Handknattleikssamband Íslands hefur tekið þá ákvörðun að aflýsa öllu mótahaldi á vegum sambandsins þetta tímabilið. Það verður því engin úrslitakeppni og lokastaðan í deildarkeppnunum verður eins og hún er núna.
Karlalið KA lýkur því keppni í Olísdeildinni í 10. sæti og kvennalið KA/Þórs endar í 6. sæti. Bæði lið leika því áfram í deild þeirra bestu. Við þökkum fyrir frábæran stuðning í vetur og hlökkum til að sjá ykkur á komandi keppnistímabili.
Karlamegin er Valur Deildarmeistari og Fram kvennamegin, við óskum þeim til hamingju með titlana. Yfirlýsing HSÍ má sjá hér fyrir neðan:
Ákvörðun stjórnar HSÍ um breytingar á mótahaldi vegna COVID-19
HSÍ aflýsir öllum frekari leikjum á keppnistímabilinu 2019-2020.
1. Samkomubann gildir til 4. maí óbreytt.
i. Þann 13. mars sl. tók stjórn HSÍ þá ákvörðun að fresta öllum leikjum og mótum á vegum sambandsins en áður höfðu yngri flokka mótum verið frestað. 16. mars tók svo gildi samkomubann yfirvalda til 13. apríl og sem nú hefur verið framlengt til 4. maí nk. Á sama tíma gildir bann við hefðbundnar handknattleiksæfingar.
ii. Þetta þýðir að ekki er hægt að hefja æfingar fyrr en 4. maí í fyrsta lagi. Gefið hefur verið út að jafnvel þótt létt verði á samkomubanni eftir þetta þá verði það í skrefum svo óvíst er hvenær hægt verði að hefja hefðbundna leikjakeppni eða æfingar og ólíklegt að það gæti orðið fyrr en í fyrsta lagi um miðjan maí, jafnvel síðar. Samhljómur er milli aðila innan handknattleikshreyfingarinnar að eftir langt æfingabann (amk. 7-8 vikur) þá verði leikmenn og félög að fá að æfa amk. 14 daga fyrir fyrsta leik til að tryggja velferð þeirra og gæði og jafnvel eftir þann tíma er mikil meiðslahætta.
iii. Samkvæmt þessu geta fyrstu leikir aldrei verið fyrr en 18. maí í besta falli og í raun mjög líklegt að það verði síðar en það miðað við yfirlýsingar um að samkomubann (þ.m.t. 2 metra regluna) verði aflétt í skrefum. Ljóst er að það er óábyrgt að áætla að hægt sé að leika bæði síðustu leiki keppna (um 40 leikir í efstu deildum karla og kvenna) miðað við tilmæli yfirvalda um aðgát og líkur á lengdu samkomubanni þó hugsanlega í mildara formi. Slíkt myndi valda óásættanlegu leikjaálagið og meiðslahættu fyrir bæði leikmenn sem og að það geti sett sjálfboðaliða og áhorfendur í smithættu miðað við stöðuna í þjóðfélaginu í dag.
iv. Í ljósi þess að Evrópska handknattleiksambandið hefur áætlað landsleiki í byrjun júní sem og Evrópuleiki félagsliða í sumar þá er ljóst möguleiki til leikja er í besta falli 10 dagar og því ómögulegt að ljúka hefðbundnu Íslandsmóti, úrslitakeppnum og umspilskeppnum. Það er mat stjórnar að mikilvægi þess að klára síðustu leikina í þessum keppnum sé umtalsvert minna en mikilvægi þess að tryggja heilsu leikmanna og áhorfanda. Jafnvel þótt landsleikjum og Evrópuleikjum yrði fresta lengur en til júní þá telur stjórn HSÍ það ófært að lengja Íslandsmót inn í júnímánuði vegna samningsmála félaga og áhrifin sem það hefði á undirbúning næsta tímabils.
Ákvörðunin stjórnar HSÍ er því að öllum keppnum sé lokið á keppnistímabilinu 2019-2020 og miða eigi við lokastöðu deildanna við núverandi stöðu.
Stjórn er með þessu alls ekki að gera lítið úr því að einhver lið áttu möguleika á að styrkja stöðu sína fyrir lokastöðu deildarkeppni en slíkar athugasemdir verða að því miðar að lúta í lægra haldi fyrir hagsmunum heildarinnar og almannaheill. Þessi ákvörðun er hvorki léttvæg né auðveld en hún er nauðsynleg þar sem aðstæður, bæði í liðnum mánuði og áfram næstu vikur eru fordæmalausar og hafa leitt okkur til þessarar ákvörðunar.
Stjórn HSÍ vill hvetja aðildarfélög að halda áfram vel utan um sína iðkendur á þessum erfiðu tímum með öllum ráðum og dáðum og styðja þannig með öflugum hætti við handknattleik á Íslandi.
v. Ákvörðun stjórnar byggir á heimild í 1. mgr. 57. gr. laga handknattleikssambandsins, sem samþykkt voru á síðasta ársþingi HSÍ 2019.
2. Miða skal niðurstöðu keppnistímabilsins 2019-2020 við stöðu liða eftir síðasta leik.
i. Efsta lið í hverri deild er deildarmeistari 2019-2020. Stjórn HSÍ telur að þar sem ekki fór fram úrslitakeppni í Íslandsmótum þá sé ekki hægt að ákvarða Íslandsmeistara á þessu keppnistímabili. Gildir þetta um alla flokka, bæði hvað varðar niðurstöðu í deild sem og í Íslandsmóti. Enginn Íslandsmeistari verður 2019-2020.
ii. Valur er deildarmeistari Olís deildar karla og Fram deildarmeistari Olís deildar kvenna.
iii. Niðurstaða deildarkeppni Olís deildar karla og kvenna mun ráða sætum í Evrópukeppni keppnistímabilið 2020-2021.
iv. Tvö neðstu liðin í Olís deild karla og Grill 66 deild karla falla í næstu deild fyrir neðan og 2 efstu lið Grill 66 deildar karla og 2. deildar karla taka þeirra sæti að teknu tilliti til þess að aðallið og U lið félags geta ekki leikið í sömu deild. Þau lið sem falla úr Olís deild karla eru HK og Fjölnir og liðin sem fara upp eru Þór Ak. og Grótta. Þau lið sem falla úr 1. deild eru Fjölnir U og Stjarnan U og þau lið sem fara upp í 1. deild eru Selfoss U og Fram U.
v. Neðsta liðið í Olís deild kvenna fellur í Grill 66 deild kvenna og efsta liðið í Grill 66 deild kvenna fer upp í efstu deild að teknu tilliti til þess að aðallið og U lið félags geta ekki leikið í sömu deild. Þar sem umspilskeppni um sæti í efstu deild fer ekki fram þá er horft til meginreglna í lögum HSÍ að úrvalsdeildarlið sé rétthærra en lið úr neðri deild ákvað stjórn HSÍ því að eitt lið myndi færast á milli deilda. Liðið sem fellur er Afturelding og liðið sem fer upp er FH.
vi. Fyrir tímabilið 2020-2021 munu tvö lið falla og tvö lið fara upp á milli deilda í öllum flokkum.
Hvað varðar yngri flokka þá telur stjórn HSÍ það mikilvægt að aðildafélög HSÍ reyni eftir fremsta megni að gefa iðkendum sínum tækifæri til að stunda handknattleik þrátt fyrir að Íslandsmótum hafi verið aflýst með þessum hætti vegna COVID-19. Það er von stjórnar HSÍ að mögulegt verði að hefja æfingar í handknattleik í maí mánuði og mun mótanefnd HSÍ í samráði við félögin standa fyrir sérstökum sumarmótum í því skyni. Nánara fyrirkomulag þess verður tilkynnt síðar.