Flýtilyklar
Myndaveislur frá einvígi KA og Hauka 2001
KA og Haukar mættust í úrslitum Íslandsmótsins í handbolta veturinn 2000-2001. KA hafði orðið Deildarmeistari fyrr um veturinn og hafði því heimaleikjarétt í einvíginu og fór fyrsti leikur liðanna fram í KA-Heimilinu 26. apríl 2001.
Haukar komust fljótlega í 0-2, en Sævar Árnason og Halldór Sigfússon úr vítakasti jöfnuðu fljótlega fyrir KA sem tók frumkvæðið í leiknum og hafði 13-10 yfir í hálfleik. KA-menn voru mun ákveðnari í leik sínum og grimmari bæði í vörn og sókn, vel studdir af áhorfendum í troðfullu KA-Heimilinu.
RÚV sýndi síðari hálfleikinn í fyrsta leik liðanna í KA-Heimilinu
Gestirnir reyndu hvað þeir gátu til að jafna metin í þeim síðari en það gekk ekki og KA vann að lokum afar sanngjarnan 25-20 sigur og tók forystuna í einvíginu. Halldór Jóhann Sigfússon og Guðjón Valur Sigurðsson voru markahæstir hjá KA með 6 mörk hvor, Sævar Árnason gerði 4, Giedrius Cerniauskas 4, Andrius Stelmokas 2, Heimir Örn Árnason 1, Arnór Atlason 1 og Jóhann Gunnar Jóhannsson 1 mark.
Það voru ótrúlegar sveiflur í öðrum leik liðanna er þau mættust að Ásvöllum. Eftir öruggan sigur KA í fyrsta leiknum kom fljótt í ljós að Haukaliðið var í allt öðrum og betri ham en fyrir norðan og höfðu yfirburðarstöðu 15-8 í hálfleik. En það má aldrei afskrifa KA-liðið og allt í einu small liðið saman.
Vörnin fann taktinn, Hörður Flóki fór að verja í markinu og hraðaupphlaupin fóru að ganga. Það tók KA rúmar 12 mínútur að jafna leikinn 17-17 og komst í kjölfarið yfir í 18-20. Umskiptin höfðu orðið alger, en þessi gríðarlega góði kafli hafði tekið sinn toll og Haukarnir náðu undirtökunum að nýju og jöfnuðu metin í einvíginu með 25-22 sigri.
Sömu helgi tryggði 3. flokkur karla sér Íslandsmeistaratitilinn en nokkrir í liðinu voru nú þegar komnir í hlutverk hjá meistaraflokki og má þar nefna Arnór Atlason og Baldvin Þorsteinsson. Jóhannes Gunnar Bjarnason var þjálfari strákanna og var Þórir Tryggvason ljósmyndari á svæðinu þegar þeir hömpuðu titlinum eftir 27-16 stórsigur á Aftureldingu í úrslitaleik.
Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir af Íslandsmeisturum KA í 3. flokki árið 2001
Aftari röð frá vinstri: Jón Óskar Ísleifsson vatnsberi, Ólafur Már Þórisson, Arnar Þór Sæþórsson, Einar Logi Friðjónsson, Arnór Atlason, Egill Thoroddsen, Jóhannes G. Bjarnason þjálfari, Þórir Ó. Tryggvason. Fremri röð frá vinstri: Hafþór Úlfarsson, Helgi Jónasson, Gísli Grétarsson, Baldvin Þorsteinsson fyrirliði, Atli Ragnarsson, Birkir Baldvinsson, Jóhann Már Valdimarsson.
Þá var komið að þriðja leik KA og Hauka og var hann í einu orði stórkostlegur. KA-Heimilið var yfirfullt af áhorfendum og hitinn, hávaðinn og lætin mynduðu magnaða stemningu. KA var án Heimis Arnar Árnasonar sem var meiddur eftir leikinn í Hafnarfirði og byrjunin var erfið þrátt fyrir að fyrirliðinn Sævar Árnason skoraði fyrsta mark leiksins fyrir KA.
Stutt yfirferð yfir baráttu KA og Hauka um Íslandsmeistaratitilinn 2001
Haukar komust yfir 1-3, en eftir að Andrius Stelmokas hafði náð forystunni að nýju fyrir KA í 4-3 var forskotið ekki látið af hendi. Í hálfleik hafði KA yfir 10-7, en með þrem fyrstu mörkunum í þeim síðari gáfu heimamenn tóninn um það sem koma skyldi og þeir juku jafnt og þétt við forskotið allt til loka. Lokatölur 27-18 stórsigur KA sem tók því aftur forystu í einvíginu.
Ekki gátu KA-menn kvartað undan stuðningnum sem þeir fengu frá ótrúlegum fjölda áhorfenda er fjórði leikurinn í einvíginu fór fram í Hafnarfirði. Það voru örugglega jafn margir stuðningsmenn KA í húsinu og studdu liðið dyggilega allt til loka þrátt fyrir að staðan væri lengst af ljót. Menn vildu greinilega ekki missa af því ef KA næði að tryggja sér titilinn og fjölmenntu því á leikinn. En því miður kom fljótlega í ljós þrátt fyrir jafna byrjun leiksins að þetta yrði ekki okkar dagur.
Smelltu á myndina til að skoða fleiri myndir Þóris Tryggvasonar frá fjórða leik liðanna
Haukar höfðu yfirburðastöðu í hálfleik, 18-12. Það voru Haukar sem gerðu fyrsta mark síðari hálfleiks og KA-liðið náði alls ekki tökum á leiknum. Þrátt fyrir það náðu þeir með mikilli baráttu og einstaklingsframtaki ákveðinna leikmanna að laga stöðuna og smá vonir vöknuðu undir lokin er Jóhann Gunnar Jóhannsson minnkaði muninn í tvö mörk 28-26. En tíminn var of stuttur og mistökin of mörg, þannig að Haukarnir lönduðu sigri 30-28 og því ljóst að hreinn úrslitlaleikur liðanna var framundan.
Það var því heldur betur eftirvænting í loftinu fyrir hreinum úrslitaleik liðanna í KA-Heimilinu og komust færri að en vildu. Jafnt var á öllum tölum fram í miðjan fyrri hálfleikinn er staðan var 7-7. Þá urðu kaflaskipti og KA liðið lenti í vandræðum með að finna glufur í Haukavörnina eftir það. Gestirnir náðu góðu forskoti með kraftmiklum og ákveðnum leik sem KA átti einfaldlega ekki svar við. Í hálfleik höfðu Haukar yfir 10-14.
Smelltu á myndina til að skoða myndir Þóris Tryggvasonar frá oddaleiknum í KA-Heimilinu
Í síðari hálfleik leiddu gestirnir allan tímann en aldrei gafst KA-liðið upp. Undir lokin varð Jónatan Magnússon fyrir meiðslum á höfði, var fluttur á brott í sjúkrabíl og var fólki eðlilega brugðið. Í kjölfarið kom KA-liðið með áhlaup en það dugði ekki og úrslitin 27-30 sigur Hauka sem hömpuðu þar með Íslandsmeistaratitlinum.
Niðurstaðan var vissulega gríðarlega svekkjandi enda hafði KA-liðið haft þó nokkra yfirburði í viðureignum liðanna í KA-Heimilinu fram að oddaleiknum. En þegar upp var staðið var veturinn gríðarlega jákvæður. Liðinu hafði verið spáð 5. sæti deildarinnar fyrir tímabilið og kom því mörgum á óvart með framgöngu sinni. Liðið nýtti sér svo reynsluna úr einvíginu og hampaði Íslandsmeistaratitlinum árið eftir einmitt eftir hefnd á Haukum í undanúrslitum.