Flýtilyklar
Andri Snær tekur við KA/Þór
KA/Þór réð í dag Andra Snæ Stefánsson sem þjálfara meistaraflokks kvenna og mun hann því taka að sér stjórn liðsins fyrir komandi handboltavetur. Mikill uppgangur hefur verið hjá kvennaliðinu okkar undanfarin ár og ljóst að spennandi vetur er framundan.
KA/Þór tryggði sér þátttökurétt í deild þeirra bestu veturinn 2017-2018 eftir yfirburðarsigur í Grill66 deildinni þar sem liðið tapaði ekki leik. Undanfarna tvo vetur hefur liðið fest sig í sessi sem eitt af bestu liðum landsins og fór meðal annars í úrslit Coca-Cola bikarsins í vetur.
Andri Snær sem hefur verið fyrirliði karlaliðs KA undanfarin ár byrjaði snemma í þjálfun og hefur síðustu þrjú ár stýrt ungmennaliði KA sem vann sigur í 2. deildinni veturinn 2018-2019 og festi sig í sessi í Grill66 deildinni á nýliðnum vetri. Samningur Andra við KA/Þór er til tveggja ára.
Það er ekki nokkur spurning að það er spennandi vetur framundan hjá kvennaliði KA/Þórs en á dögunum skrifaði landsliðskonan Rut Arnfjörð Jónsdóttir undir tveggja ára samning við liðið.
Á sama tíma og við bjóðum Andra velkominn til starfa hjá KA/Þór þökkum við Gunnari Líndal Sigurðssyni fyrir hans störf með liðið á nýliðnum vetri.