Alfreð Gíslason í Heiðurshöll ÍSÍ

Handbolti

Alfreð Gíslason var í kvöld á hófi Íþróttamanns ársins útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ. Alfreð er nítjándi einstaklingurinn sem ÍSÍ útnefnir í höllina. Alfreð lék 190 leiki fyrir íslenska landsliðið í handbolta og skoraði í þeim 542 mörk. Hann var valinn besti leikmaður B-keppninnar í Frakklandi 1989 þar sem Ísland fór með sigur af hólmi. Sama ár var Alfreð valinn Íþróttamaður ársins.

Á Íslandi þjálfaði Alfreð KA í sex ár og gerði KA að Íslandsmeisturum 1997, bikarmeisturum 1995 og 1996 og deildarmeisturum 1996. Sem leikmaður átti Alfreð farsælan feril bæði, á Íslandi lék Alfreð með KA og KR og var meðal annars spilandi þjálfari með KA. Alfreð spilaði með Tusem Essen í Þýskalandi 1983-1988 og Bidasoa á Spáni 1989-1991.

Alfreð var landsliðsþjálfari Íslands árin 2006-2008 og stýrði liðinu á HM 2007 og á EM 2008. Árin 1997-1999 stýrði Alfreð VfL Hameln í Þýsku úrvalsdeildinni en tók í kjölfarið við SC Magdeburg og stýrði þeim frá 1999 til ársins 2006. Með Magdeburg varð Alfreð Þýskur meistari og vann sigur í DHB-Supercup árið 2001 og í kjölfarið vann liðið Meistaradeild Evrópu árið 2002.

Hann tók við VfL Gummersbach árið 2006 og stýrði þeim til ársins 2008. Hann tók svo við THW Kiel í kjölfarið og gerði liðið sex sinnum að Þýskum meisturum og sex sinnum að Bikarmeisturum. Þá stýrði hann liðinu tvívegis til sigurs í Meistaradeild Evrópu, fjórum sinnum til sigurs í DHB-Supercup, einu sinni til sigurs í EHF Cup og einu sinni til sigurs í IHF Super Globe.

KA óskar Alfreð hjartanlega til hamingju með þennan mikla heiður. Ásamt Alfreð skipa eftirfarandi aðilar Heiðurshöllina:

Vilhjálmur Einarsson, Bjarni Friðriksson, Vala Flosadóttir, Jóhannes Jósefsson, Sigurjón Pétursson, Albert Guðmundsson, Kristín Rós Hákonardóttir, Ásgeir Sigurvinsson, Pétur Guðmundsson, Gunnar A. Huseby, Torfi Bryngeirsson, Ríkharður Jónsson, Sigríður Sigurðardóttir, Guðmundur Gíslason, Geir Hallsteinsson, Jón Kaldal, Skúli Margeir Óskarsson og Hreinn Halldórsson.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482  | blak@ka.is