Flýtilyklar
14 frá KA og KA/Þór í landsliðshópum
Þjálfarar yngri landsliða Íslands í handbolta gáfu í dag út hóp leikmanna fyrir komandi verkefni í sumar en um er að ræða U-21, U-19 og U-17 ára landslið karla og U-19 og U-17 ára landslið kvenna. Það má með sanni segja að okkar fulltrúar séu sýnilegir en alls voru 14 leikmenn valdir úr röðum KA og KA/Þórs.
Á næstu dögum munu þjálfarar liðanna funda með leikmönnum og fara yfir verkefni sumarsins ásamt undirbúningi. Allir fundirnar fara fram á Microsoft Teams en ekki er um að ræða æfingar að þessu sinni, hópar leikmanna eru valdir fyrir fundina til að sem flestir fái kynningu á því sem framundan er.
Svavar Ingi Sigmundsson var valinn í U-21 árs landsliðið en hann hefur verið fastamaður í liðinu undanfarin ár. Liðinu stýra þeir Einar Andri Einarsson og Sigursteinn Arndal.
3. flokkur KA/Þórs lék til bikarúrslita á síðustu leiktíð og eru 6 úr liðinu í landsliðshópunum (mynd: Þórir Tryggva)
Fimm leikmenn úr röðum KA/Þórs voru valdir í U-19 ára landslið kvenna en stelpurnar fóru meðal annars í bikarúrslit á síðustu leiktíð. Þetta eru þær Anna Marý Jónsdóttir, Júlía Sóley Björnsdóttir, Ólöf Maren Bjarnadóttir, Rakel Sara Elvarsdóttir og Telma Lísa Elmarsdóttir. Liðinu stýra þau Díana Guðjónsdóttir og Magnús Stefánsson frá Fagraskógi.
Þeir Arnór Ísak Haddsson og Haraldur Bolli Heimisson voru valdir í U-19 ára landslið karla en Arnór hefur leikið á öllum mótum sem liðið hefur tekið þátt í til þessa og Haraldur hefur verið í æfingahópum undanfarin ár. Heimir Ríkarðsson og Gunnar Andrésson stýra liðinu.
Hildur Lilja Jónsdóttir er fulltrúi KA/Þórs í U-17 ára landsliði kvenna en hún hefur verið valin í landsliðshóp undanfarin ár og lék upp fyrir sig með 3. flokksliði KA/Þórs sem fór í bikarúrslitin í fyrra. Þjálfarar hópsins eru þeir Ágúst Jóhannsson og Árni Stefán Guðjónsson.
Að lokum eru fimm fulltrúar KA í U-17 ára landsliðshópi karla en strákarnir urðu deildar- og bikarmeistarar á síðustu leiktíð en gátu ekki orðið Íslandsmeistarar vegna Covid. Ísak Óli Eggertsson er í 2004 hópnum og þeir Bjarki Jóhannsson, Logi Gautason, Marínó Þorri Hauksson og Skarphéðinn Ívar Einarsson eru í 2005 hópnum. Rúnar Sigtryggsson, Jón Gunnlaugur Viggósson og Andri Sigfússon eru þjálfarar hópsins.
Við óskum fulltrúum okkar til hamingju með valið og verður spennandi að sjá framvindu þessa hópa á næstu mánuðum enda spennandi verkefni framundan í sumar ef aðstæður leyfa.