Hugi Elmarsson framlengir um tvö ár

Handbolti
Hugi Elmarsson framlengir um tvö ár
Hugi og Atli handsala samninginn

Hugi Elmarsson skrifaði í dag undir nýjan tveggja ára samning við handknattleiksdeild KA og er nú samningsbundinn út tímabilið 2025-2026. Hugi sem er 18 ára gamall er afar efnilegur vinstri hornamaður sem hefur verið að vinna sér inn stærra hlutverk í meistaraflokksliði KA.

Hugi er hluti af hinum ógnarsterka 2006 árgang í félaginu en strákarnir töpuðu ekki leik í öllum fjórða flokki þar sem þeir hömpuðu öllum þeim titlum sem í boði voru á Íslandi áður en þeir urðu Partille Cup meistarar en þar lögðu þeir mörg af sterkustu liðum Norðurlandanna.

Auk þess er Hugi fastamaður í U18 ára landsliði Íslands rétt eins og liðsfélagar hans þeir Dagur Árni Heimisson, Jens Bragi Bergþórsson og Magnús Dagur Jónatansson en þeir hafa allir skrifað undir nýja samninga að undanförnu og ljóst að við höldum áfram að spila á okkar efnilegu og öflugu ungu leikmönnum.

Það er ákaflega jákvætt að Hugi sé búinn að skrifa undir nýjan samning við uppeldisfélagið og verður afar gaman að fylgjast með honum áfram stíga skref fram á við í meistaraflokksliði KA í efstu deild á næstu leiktíð.


Knattspyrnufélag Akureyrar  |  Dalsbraut 1 600 Akureyri  |  S. 462 3482 | Hafa samband